Atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna lýkur á morgun
Verk Vest hefur haldið þrjá kynningafundi um endurnýjaðan kjarasamning sjómanna bæði á Ísafirði og Patreksfirði. Fundirnir hafa verið mjög málefnalegir þó svo ljóst sé að hljóðið í sjómönnum sé þungt og skal engan undra. Rauði þráðurinn í samtölum við sjómenn er að taka þurfi olíuverðsviðmið til gagngerrar endurskoðunar og gera þurfi betur vegna nýsmíðaálagsins, þó svo samið hafi verið um að fella ákvæðið út á næstu 14 árum. Ekki bætir úr skák að vegna óhagstæðrar gengisþróunar að undanförnun hafa laun sjómanna lækkað svo um munar eins og kom fram í viðtali við formann Verk Vest í fréttum RÚV í gær.
Atkvæðagreiðsla um kjarasaming sjómanna sem hefur staðið frá 22. nóvember lýkur kl.12.00 á morgun miðvikudaginn 14. desember. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni er mun betri en þegar kosið var síðast, en í morgun höfðu 53,4% greitt atkvæði. Samkvæmt samkomulagi við SFS um frestun verkfalls hefst verkfall að nýju 14. desember kl.20:00 verði samningurinn felldur. Þá ber áhöfnum að hífa veiðafæri úr sjó og gera skip klárt til heimferðar. Gert er ráð fyrir að tilkynna viðsemjendum og sáttasemjara úrslit kl.14.00 á morgun.