Translate to

Fréttir

Aukið atvinnuleysi - tökum á svartri atvinnustarfsemi !

Komum í veg fyrir svik og pretti Komum í veg fyrir svik og pretti
Kári og Þröstur við upphaf fundar Kári og Þröstur við upphaf fundar
Blaðað gegnum fundargögnin Blaðað gegnum fundargögnin
Finnur og Eiríkur Finnur og Eiríkur

Á stjórnarfundi Verkalýðsfélags Vestfirðinga sem var haldinn í húsi félagsins á Suðureyri í gærkvöldi var staða atvinnumála mjög til umræðu. Áhyggjur fundarmanna beindust helst að því  hversu mjög  atvinnuleysi í fjórðungnum  hefur aukist. Einnig þá staðreynd að þrátt fyrir að íbúmum fjórðungsins hafi fækkað nokkuð á síðasta ári þá hefur atvinnuleysi aukist meira en gert var ráð fyrir.  Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um að þrátt fyrir að hluti af atvinnulausum flytist á brott þá erum við samt að sjá umtalsverða aukningu á atvinnuleysi. Þessi staðreynd segir okkur að störfum í fjórðungnum hefur fækkað mun meira en nemur brottfluttum.
    

Þá var einnig mikill hiti í fundarmönnum vegna aðgerðarleysis yfirvalda gegn svartri atvinnustarfsemi. Svört atvinnustarfsemi skekkir  ekki eingöngu samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja heldur kemur hún einnig í veg fyrir að ný fyrirtæki reyni að hefja starfsemi með allt upp á borðinu.  Við hljótum öll að sjá hvílíkt óréttlæti þau fyrirtæki verða fyrir sem eru að standa sig á meðan ekkert er gert til að uppræta svarta atvinnustarfsemi. Þetta veldur öllu samfélaginu miklum skaða, ekki bara fjárhagslegum skaða heldur einnig á grundvelli réttindamissis þeirra einstaklinga sem taka þátt og vinna svart.


Launamaður hjá fyrirtæki sem er með allt upp á borðinu og greiðir af starfsmanni kjarasamningsbundin gjöld, svo sem félagsgjald, sjúkra- og fræðslusjóði, orlof, lífeyrissjóð einnig tryggingagjald og skatta nýtur fullra réttinda.  Sá sem vinnur svart er algjörlega réttindalaus. Hann  hefur ekki veikinda- eða slysarétt, á ekki rétt á orlofi, nýtur ekki lífeyrisgreiðslna, er ótryggður og það sem verra er það er hægt að reka viðkomandi  úr vinnunni fyrirvaralaust án nokkurra varna.  Sá sem vinnur svart tekur því gríðarlega áhættu og að auki er hann samsekur þeim sem stundar svörtu atvinnustarfsemina.


Við getum verið þakklát fyrir að það eru ekki mörg fyrirtæki á félagssvæði Verkalýðsfélags Vestfirðinga sem stunda svarta atvinnustarfsemi. En því miður þarf ekki nema eitt skemmt epli í hverju samfélagi sem skemmir út frá sér. Það er okkar samfélagslega skylda að reyna með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi.  Menn hljóta að sjá það í hendi sér hvílík ósanngirni fellst í því að fyrirtæki sem stunda svarta atvinnustarfsemi skulu fá fulla þjónustu frá samfélaginu en skila ekki til samfélagsins líkt og þau fyrirtæki sem fara að settum reglum.  Ef við ætlum að byggja upp réttlátt og samfélag þar sem allt er upp á borðinu þá er svört atvinnustarfsemi eitt af meinunum sem þarf að stinga á og það sem fyrst.

Deila