Translate to

Fréttir

Aukið mótframlag 1. júlí – val um ráðstöfun iðgjalds

Hagur sjóðfélaga vænkast um næstu mánaðamót þegar framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð þeirra hækkar um 1,5%. Þetta er önnur hækkun af þremur til jöfnunar lífeyrisréttinda sem samið var um í kjarasamningum ASÍ og SA í janúar 2016. Til að framfylgja ákvæðum kjarasamningsins var samþykktum Gildis-lífeyrissjóðs breytt á aukaársfundi í gær.

Allt viðbótariðgjaldið fer í samtryggingardeild nema sjóðfélagi óski eftir að því verði ráðstafað í tilgreinda séreign, sem svo er kölluð. Frá 1. júlí 2017 eru það 2% (1. júlí 2016 hækkaði mótframlagið um 0,5%) og 1. júlí 2018 verða það 3,5%. Iðgjald til skyldutryggingar lífeyris verður því 15,5% frá miðju næsta ári og eftir sem áður fara a.m.k. 12% í samtryggingardeild.

Hægt verður að velja um þrjár mismunandi ávöxtunarleiðir fyrir tilgreinda séreign hjá Gildi-lífeyrissjóði. Heimilt er að skipta um ávöxtunarleið og færa áunna séreign milli ávöxtunarleiða. Réttindi í samtryggingardeild sjóðsins, þ.e. til elli- og áfallalífeyris, aukast þá ekki að sama skapi. Sjóðfélagi má hvenær sem er breyta því hvernig hann ráðstafar iðgjaldi umfram 12%.

Á aukaársfundi Gildis 22. júní þar sem breytingar á samþykktum sjóðsins voru samþykktar kynnti framkvæmdastjóri sjóðsins tilgreindu séreignina. Kynninguna má sjá hér.

Nánari upplýsingar og eyðublað sem sjóðfélagi þarf að fylla út vilji hann ráðstafa hluta iðgjalds í tilgreinda séreign munu verða á heimasíðu sjóðsins í lok júní og hægt verður að sækja um eftir 1. júlí.

Deila