Translate to

Fréttir

Ber okkur gæfu til að standa saman ?

Frá baráttudegi verkafólks á Ísafirði. Mynd. Gummi H. Frá baráttudegi verkafólks á Ísafirði. Mynd. Gummi H.

Hvernig heldur þú að komandi kjarasamningar komi til með að ganga?  Þessari spurningu er ég spurður að nánast hvern einasta dag og á öllum mannamótum sem ég fer á. Ég svara því til að þetta verði ekki einfaldir samningar og að eitt sé víst ef launafólk í landinu ætlar ekki að ganga í takt þá verði fjandinn laus. Ég fékk góða hvatningu frá félagsmanni á dögunum sem sagði að nú yrði launafólk að sýna hvað alvöru samstaða er og hverju þessi samstaða geti skilað launafólki þegar upp er staðið. Þetta eru orð að sönnu því alvöru samstaða launafólks hefur skilað samfélaginu stærstu sigrunum, en við lifum ekki um alla tíð á sigrum í gömlum orrustum.
 

Við gerð síðustu kjarasamninga átti að hafa það að leiðarljósi að verja kjör þeirra lægstlaunuðu, í sumum tilfellum hefur það tekist þótt ótrúlegt þyki enda finnur hinn almenni launamaður það ekki á sinni buddu. Þrátt fyrir það er svo komið að 8 tímarnir duga ekki til framfærslu og ef unnin er yfirvinna hirðir ríkið stærstan hluta af því í formi skatta. Það er auðvita óasættanlegt að launafólk með um 250 þúsund í mánaðarlaun skuli í dag greiða tæp 40% af launum sínum í skatta og útsvar, þá eru jaðarskattar ótaldir.


Í umræðunni hefur því verið haldið á lofti að stórir hópar launafólks hafi verið skildir eftir þegar kemur að launhækkunum. Hvernig geta menn staðið keikir og haldið því fram.  Tökum dæmi; launþegi sem var með 350 þúsund í laun í nóvember 2009 hefur fengið að lágmarki á síðustu 12 mánuðum rúmar 21 þúsund krónur í hækkun. Annað dæmi; launþegi sem var með 420 þúsund í laun í nóvember 2009 hefur fengið að lágmarki á síðustu 12 mánuðum rúmar 25 þúsund krónur í hækkun. Menn virðast alveg hafa gleymt því að svokölluð launaþróunartrygging skilaði þessum hópi launafólks allnokkrar hækkanir. Á meðan fékk hinn almenni taxtalaunamaður 13.250 og hver hefur þá verið skilinn eftir?


Nú verðum við öll að leggjast á árarnar og ná fram stöðugleika og auknum kaupmætti, það verður ekki gert með spretthlaupi í formi skammtíamlausna.  Ég hef áður komið inn á það bæði í ræðu og riti að við yrðum að binda á okkur hlaupaskónna því framundan væri langhlaup við ná fram bættum kaupmætti. Því miður hefur hlaupið ekki gengið vel, enda á brattann að sækja. Ef við ætlum okkur að ná árangri verðum við að horfa til langtíma kjarasamnings með stöðugleika og kaupmáttaraukningu að leiðarljósi. Litlar líkur eru á að slíkt náist í skammtíma kjarasamningi og alls ekki í örsamningi.  Kjarasamningar þurfa að miða að sátt í samfélaginu og stöðugleika, þar tala ég um þríhliða samning launþega, aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar,  með öðrum hætti næst varla ásættanlegur árangur.
 

Í upphafi talaði ég um mikilvægi samstöðunnar, látum ekki etja okkur saman líkt og var ástundað fyrir miðja síðustu öld þegar þrengdi verulega að á vinnumarkaði. Á þeim tíma var reynt að brjóta niður baráttuvilja verkafólks með öllum tiltækum ráðum. Við megum ekki láta slíkt henda aftur, til of mikils hefur verið barist.  Launþegasamtök í landinu verða að vinna saman þegar á eitthvert okkar er hallað. Sýna hvort öðru samstöðu, ekki bara í orði heldur líka í verki. Til þess að slíkir sigrar náist verðum við öll að taka þátt í baráttunni, ekki eingöngu vera þiggjendur eða farþegar. Það er skylda okkar að styðja hvort annað í baráttunni fyrir bættum kjörum.

Finnbogi Sveinbjörnsson,
formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga
Deila