Translate to

Fréttir

Bindum enda á græðgi fyrirtækjanna - heimurinn þarfnast hærri launa

Fyrsta maí yfirlýsing Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC)

Árangurinn, sem margar kynslóðir starfandi stétta hafa skilað og fagnað er fyrsta maí, sætir kerfisbundnum og linnulausum atlögum, þar sem valdamikil fjölþjóðleg fyrirtæki og fáeinir gríðarlega auðugir einstaklingar ráða lögum og lofum um hagkerfi heimsins. Stjórnvöld hörfa hvarvetna, eru leiksoppar þeirra ofurríku og bregðast skyldu sinni að tryggja mannsæmandi vinnu fyrir alla og binda enda á fátækt. Þjóðernishyggja og útlendingahatur vega að rótum samstöðunnar, nú þegar heimurinn stendur frammi fyrir stærsta flóttamannavandamáli í 70 ár og troðið er á réttindum farandvinnufólks sem er svipt þeirri reisn að fá jafna meðferð. 

Tugir milljóna karla og kvenna eru föst í nútíma þrælahaldi og enn fleiri mynda falið vinnuafl í aðfangakeðjum framleiðenda sem spanna heiminn allan. Þeim er neitað um réttinn til að stofna stéttarfélög, fá greitt lágmarkskaup sem dugar fyrir framfærslu og eru iðulega föst í hættulegri og niðurlægjandi vinnu. 40% af vinnuafli heimsins er bundið á klafa óformlegs hagkerfis, býr við réttleysi og á varla til hnífs og skeiðar. Hið eitraða kreddukerfi efnahagsþrenginga, sem er gert til að flytja enn meiri auð til þess 1% sem mest á, kemur verst niður á konum og kemur í veg fyrir nokkurn möguleika á að takast á við þau miklu vandamál sem við stöndum frammi fyrir. 

Á meðan meira en milljarður manna býr við ofbeldi eða óöryggi og hundruðir þúsunda eru í framlínu vopnaðra átaka, er hættan á nýju stríði aldrei langt undan. Það verður enginn friður án mannréttinda og aðeins með því að tryggja mannréttindi, þar með talin grundvallarréttindi vinnandi stétta, næst hagsæld og friður. 

Hið hagræna samhengi er úr lagi gengið, fjöldinn þarf að taka höndum saman, búa til nýjar reglur fyrir sig en ekki fyrir hina fáu. 

Launafólk um víða veröld er að berjast fyrir rétti sínum, skipuleggja stéttarfélög frammi fyrir ofbeldisfullri kúgun, berjast fyrir mannsæmandi vinnu og fara jafnvel í verkfall þar sem enginn réttur er til slíks. Í verksmiðum Austur-Asíu og á plantekrum Mið-Ameríku, í bæjum og borgum Afríku og um allan heim stendur vinnandi fólk upp gegn hótunum fyrirtækja og fer fram á að réttur þess til að stofna stéttarfélög, réttur til almennra kjarasamninga og félagslegrar verndar sé virtur og að þau fái trausta og örugga vinnu. Konur segja „þið skuluð reikna með okkur“ þegar kemur að jafnrétti á vinnustöðum, fjárfestingu í samfélagsverkefnum, endalokum launamuns kynjanna og réttmætri þátttöku kvenna í framvarðasveit stéttarfélaga. 

Þessi dagur hefur verið tækifæri í 130 ár til að fagna samstöðu og votta virðingu þeim sem fórnuðu svo miklu til að styðja málstað félagslegs réttlætis. Fyrsti maí 2017 er enn og aftur dagur til að sýna styrk og staðfestu vinnandi stétta, í baráttu þeirra gegn kúgun, til að sýna samstöðu heima og milli landa og vinna áfram að því verkefni að búa til betri heim. 

Það steðja að okkur ný og ögrandi viðfangsefni, tæknin gerbreytir starfsumhverfinu, hætta er á að loftslagsbreytingar af mannavöldum valdi enn meiri eyðileggingu og popúlismi ásamt öfga hægri stefnum verða sífellt vinsælli. Við köllum eftir því að stjórnvöld bregðist við ógnun og áþján elítunnar, sem rígheldur í stjórnartauma valdsins, og taki sér stöðu með vinnandi stéttum. Við erum áfram staðföst í samstöðu okkar með öllum þeim sem sæta undirokun, búa við fátækt og misneytingu og hættum aldrei að vinna að hagsæld, jafnrétti og virðingu fyrir alla.

Deila