Translate to

Fréttir

Breytingar á greiðslum styrkja fræðslusjóða

Frá viku símenntunar Frá viku símenntunar

Frá og með 1. janúar voru teknar upp breytingar við greiðslu fræðslustyrkja hjá Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt. Nú verða styrkir afgreiddir um leið og viðkomandi kemur með kvittun vegna greiðslu á námi/námskeiði. Hingað til hafa styrkir ekki verið afgreiddir fyrr en að námi/námskeiði loknu. Þetta er gert til að koma betur á móts við þarfir markhóps sjóðanna. Sérstaklega þegar kreppir að og atvinnuleysi gerir vart við sig í meira mæli en verið hefur. Þá getur þetta einnig reynst hvatning til náms fyrir ungt fólk sem hætt hefur námi á ákveðnum tíma og langar síðan að reyna fyrir sér á ný - hættir að vinna og byrjar í námi.

 

Nú er það svo að fólk sem missir vinnu og fer á atvinnuleysisskrá missir ekki áunnin réttindi í fræðslusjóðunum Verk Vest ef það heldur áfram að greiða félagsgjald til stéttarfélagsins. Einstaklingar ávinna sér hins vegar ekki réttindi áfram skv. kjarasamningum. Hjá verslunarmönnum er þessu öðruvísi farið þar sem félagsmenn halda áfram að ávinna sér stig hjá fræðslusjóði sínum með greiðslu félagsgjalda.

 

Félagsmenn Verk Vest eru hvattir til að sækja ávallt um styrki vegna náms og í þeim tilvikum þegar vafi leikur á því hvort viðkomandi hafi rétt á styrk frá sjóðunum vegna langtímaatvinnuleysis þá skuli þær umsóknir sendar beint til stjórna sjóðanna til afgreiðslu. Þannig fái allar umsóknir afgreiðslu og tekið verður tillit til aðstæðna á einstaklingsgrundvelli. Með þessum hætti eru sjóðirnir að bregðast við væntanlegum erfiðleikum einstaklinga sem missa vinnu sína vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir.

 

Þá skal tekið fram og ítrekað að styrkir sjóðanna verða óbreyttir og hámarksstyrkur til aukins ökunáms er kr.100.000 en þó aldrei hærri en sú upphæð sem greidd er fyrir námið.  Einnig eru félagsmenn hvattir til að nýta sér möguleika á styrk vegna almenns ökunáms. 

Deila