Breytingar á lögum um fæðingarorlof
Helstu breytingarnar sem tóku gildi vegna barna sem fæddust (voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur) 1. janúar 2013 og síðar eru þessar:
a) Hlutfall við útreikning fæðingarorlofs er 80% af heildartekjum í viðmiðunarmánuðunum. Þó eru greiðslur úr fæðingarorlofssjóði til foreldris aldrei hærri en 350.000 krónur á mánuði.
b) Greiðslur í fæðingarorlofi til foreldris í 25-49% starfi í hverjum mánuði eru aldrei lægri en 94.938 krónur og til foreldris í 50-100% starfi í hverjum mánuði 131.578 krónur. Fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi eru 131.578 krónur á mánuði og fæðingarstyrkur annarra 57.415 krónur á mánuði.
Fæðingarorlofið lengist í áföngum á næstu árum:
2014: Réttur foreldra til fæðingarorlofs verður tíu mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2014.
2015: Réttur foreldra til fæðingarorlofs verður ellefu mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2015.
2016: Réttur foreldra til fæðingarorlofs verður tólf mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá 1. janúar 2016.
Þá kveða lögin sérstaklega á um réttarstöðu þungaðra kvenna, kvenna sem nýlega hafa alið börn og sem eru með börn á brjósti og skyldur atvinnurekenda gagnvart þeim.
Nánar er fjallað um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á heimasíðu ASÍ.