Translate to

Fréttir

Dagbók vinnustaðaeftirlits

Vinnustaðaeftirlit Verk Vest

Verkalýðsfélag Vestfirðinga heldur úti virku vinnustaðaeftirliti eins og lög og reglur um vinnustaðaeftirlit gera ráð fyrir og heimsækja eftirlitsfulltrúar félagsins fyrirtæki á svæðinu af handahófi. Félagssvæði Verk Vest eru allir Vestfirðir, víðfemt og fallegt svæði, en það sem ekki er augljóst er að ein ferð um félagssvæðið í góðri sumarfærð eru 1.048 kílómetrar. Við Vestfirðingar búum ekki við opna vegi allt árið og þegar færð spillist og Dynjandisheiði lokast verður þessi sama yfirferð 1.428 kílómetrar.

Hvers vegna vinnustaðaeftirlit?

Tilgangur heimsókna eftirlitsfulltrúa á vinnustaði er að styðja við heilbrigt og samkeppnishæft atvinnulíf. Annars vegar með því að tryggja að lög og kjarasamningar séu virtir, og þar sem eitthvað er ábótavant  að aðstoða rekstraraðila við að lagfæra það sem fór forgörðum. Almennt eru rekstraraðilar að gera sitt besta og taka eftirlitsfulltrúum vel og þiggja oft aðstoð við lagfæringar þar sem það á við. Hins vegar er tilgangur heimsóknanna líka að kynna starfsfólki réttindi sín og bæta tengsl við stéttarfélög. Heimsóknir eftirlitsfulltrúa  hafa skilað þeim árangri að fjöldi fyrirspurna um kaup og kjör í kjölfar vinnustaðaeftirlits hefur sjaldan verið meiri en nýliðið sumar.

Hvernig var staðan í sumar?

Rétt er að byrja á að hrósa þeim atvinnurekendum sem leituðu leiðsagnar við launaútreikning á vormánuðum. Slíkum atvinnurekendum fer fjölgandi og fyrir vikið eru hnökrar í starfsmannamálum minniháttar hjá þeim

Nú í sumar hefur þó nokkur fjöldi staða verið heimsóttur og það vekur sérstaka athygli að mjög víða hafa verið gerð mistök við launaútreikning og það heyrir til undantekninga að ráðningarsamningar liggi fyrir. Það sem vekur enn meiri athygli er að atvinnurekendur eru í auknum mæli að reyna að víkja sér undan því að greiða iðgjöld til stéttarfélaga sem er skýrt lögbrot. Þessir aðilar eiga að vita betur en taka samt upplýsta ákvörðun um að brjóta af sér með þessum hætti. Upp úr stendur að jafnaðarkaup er oft greitt, álög í vaktavinnu eru vanreiknuð og ekki greidd uppbótarhvíld þegar lágmarkshvíldartími er skertur.  Í slíkum  tilfellum getur verið um talsverðar fjárhæðir að ræða sem vantar upp á laun sem allt of fæst ekki leiðrétt nema með tilstilli dómstóla.

Því miður er þetta mikil afturför samanborið við undanfarin ár.

Skiptir þetta einhverju máli?

Takið eftir því að þegar launafólk leitar til stéttarfélaga er það að kalla eftir leiðréttingu og að fá greidd lágmarkslaun sem er algengast að verið sé að notast við í vel flestum þjónustugreinum! Rauði þráðurinn í sumar hefur verið sá að launafólk vill fá launin sín, ekki ofurlaun, aðeins lágmarkslaun, lágmarkslaun fyrir vinnu sem hefur verið innt af hendi en því miður ekki verið greitt rétt fyrir.

Ef fólk þarf að leita til stéttarfélaga til að njóta LÁGMARKS réttinda er staðan ekki góð og ljóst að eftirlit verði að efla.

Deila