Dagskrá viku símenntunar
Eins og skýrt var frá hér á vefnum í ágúst verður Vika símenntunar haldin 22. - 28. sept. Fræðslumiðstöð Vestfjarða sér um framkvæmdina á Vestfjörðum að venju. Að þessu sinni munu starfsmenn Fræðslumiðstöðvarinnar og aðrir þátttakendur ferðast um á "símenntunarrútu" frá mánudegi fram á fimmtudag og fræða fólk um kosti símenntunar og möguleika á námsstyrkjum og starfsráðgjöf.
Á kvöldin verður svo opnuð "menntakista" og vonast er til að sem flestir komi og skoði í hana. Jafnframt verður sitthvað til skemmtunar, svo sem tónlist, og er treyst á heimamenn á hverjum stað í þeim efnum.
Í kistunni verður margt að finna: Hvernig á að matreiða við opinn eld; fróðleikur um notkun internetsins til margs konar lífsfyllinga, svo sem til að finna upplýsingar og hafa samskipti. Í kistunni verður líka hægt að kynnast því hvaða mennta- og ráðgjafarúrræði standa fólki til boða og möguleikum á styrkjum til náms.
Dagskráin er í stórum dráttum á þessa leið:
Mánudagur 22. september.
Heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir í Ísafjarðarbæ.
Kl. 20-22. Menntakistan opnuð í húsi Björgunarsveitarinnar á Þingeyri. Útieldun í Víkingahringnum.
Þriðjudagur 23. september.
Fyrir hádegi: Heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á Patreksfirði.
Eftir hádegi: Heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á Bíldudal og Tálknafirði.
Kl. 20-22 Menntakistan opnuð í Sjóræningjahúsinu.
Miðvikudagur 24. september.
Heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á Reykhólum.
Kl. 20:00-22:00 Menntakistan opnuð við Reykhólaskóla.
Fimmtudagur 25. september.
Heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á Drangsnesi fyrir hádegi.
Eftir hádegi: Fyrirtæki og stofnanir á Hólmavík heimsótt.
Kl. 20-22 Menntakistan opnuð við Galdrasýningu.
Rétt er að minna á að símenntunarrútan á fyrir höndum langa ferð um vegakerfi Vestfjarða og þar getur margt gerst á langri leið. En svona er dagskráin að öllu forfallalausu. Farþegar rútunnar eru þess fullvissir að ótal fróðleiksfúsir og hressir Vestfirðingar muni taka þeim opnum örmum á öllum viðkomustöðum.