Translate to

Fréttir

Deilihagkerfið ryður sér til rúms í gisti- og ferðaþjónustu

Mynd ruv.is Mynd ruv.is

Deilihagkerfið hefur verið mikið til umræðu í hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu undanfarið enda tilefni til að hafa töluverðar áhyggjur af þróun þess og áhrifum á kjör og aðbúnað launafólks. Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á deilihagkerfinu þar sem fólk skiptist á þjónustu án þess að gjald komi fyrir og deilihagkerfinu sem er beinlínis orðinn atvinnurekstur. Evrópsk samtök launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði (EFFAT), sem SGS er aðili að sendi á dögunum frá sér eftirfarandi yfirlýsingu um deilihagkerfið í ferðaþjónustu.

Tölvuvæðingin og tilkoma nýrra tegunda netviðskipta hefur gríðarmikil áhrif á ferðaþjónustu. Æ fleiri neytendur nota netið til að skipuleggja og bóka ferðalög sín og frí.

Undanfarin ár hefur mátt sjá „deilihagkerfi“ ryðja sér til rúms í gisti- og ferðaþjónustu. Deilihagkerfi felst í því að fólk deilir eignum sínum eða þjónustu tímabundið með öðrum, annaðhvort ókeypis eða gegn gjaldi, sem ýmist getur falist í fjárgreiðslu eða annars konar þóknun.

Rétt er að benda á umfjöllun RÚV um íslenska deilihagkerfið

Fólk hefur alla tíð deilt og skipst á vörum og þjónustu, svo þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Með stafrænu byltingunni og tilkomu netsins hefur viðskiptum af þessu tagi þó verið lyft upp á nýtt stig. Orðinn er til vettvangur sem gengur í takt við framboð og eftirspurn og viðskipti geta átt sér stað í meiri mæli en áður hefur þekkst.

Deilihagkerfið hefur aukið hlut sinn á ferðaþjónustumarkaði hratt. Einstaklingar bjóða til dæmis fram heimili sín til gistingar (t.d. Couchsurfing og Airbnb), bíla sína sem samgöngumáta (t.d. Uber og BlaBlaCar) og þekkingu sína á heimastað sínum við leiðsögn (t.d. Greeters).

Oft uppfylla einstaklingar sem bjóða ferðamönnum eignir sínar eða þjónustu á forsendum deilihagkerfis ekki viðeigandi lög og skyldur sem skráð fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að fylgja. Deilihagkerfi getur því auðveldlega orðið að skuggahagkerfi.

Ef aðilar aðrir en hótel selja stuttar dvalir og hafa mikil umsvif (nefna má að æ fleiri sem selja gistingu í gegnum Airbnb leigja út margar eignir) er ljóst að störf verða til (t.d. við þrif, viðhald og umsjón), en á hinn bóginn getur störfum við hefðbundna gistiþjónustu fækkað.

Umfangsmikil kaup á húsnæði í þéttbýli í þeim eina tilgangi að leigja húsnæðið út á slíkum „deilivettvangi“ á netinu leiðir víða til hærra húsnæðisverðs. Fyrir lág- og millitekjufólk verður því sífellt erfiðara að koma sér upp húsnæði og því neyðist það til að leita í úthverfi, sem hefur í för með sér að ferðatími til og frá vinnu lengist.

Markmiðið er ekki að binda enda á deilihagkerfi, því það er í takt við óskir neytenda, en stefna verður að gagnsæi, lögmæti og félagslegu réttlæti til að koma í veg fyrir að deilihagkerfið geti af sér ójafna samkeppni og undirboð.

EFFAT skorar á yfirvöld að:

  • afla betri gagna um umfang og áhrif deilihagkerfisins á fyrirtæki og atvinnustig í gisti- og ferðaþjónustu, og einkum um hversu mörg störf verða til innan atvinnugreinarinnar í gegnum deilihagkerfið, og af hvaða tagi þau störf eru
  • tryggja að allir þjónustuveitendur í gisti- og ferðaþjónustu lúti sömu lögum og reglum hvað varðar
    • skattlagningu (t.d. skatta á fyrirtæki, tekjuskatt, virðisaukaskatt, skatt á ferðamenn)
    • heilbrigði og öryggi neytenda og starfsfólks (t.d. brunavarnir, matvælaöryggi, hreinlæti)
    • skráningu (t.d. á fyrirtækjum og gestum)
    • löggjöf á sviði atvinnu- og félagsmála
    • neytendavernd
    • umhverfisvernd
    • borgarskipulag og húsnæðismál (t.d. hvað snertir íbúðahverfi, réttindi nágranna)
    • aðgengi
    • tryggingar
    • auðsýnilegar merkingar sem gefa til kynna gistiþjónustu til að tryggja að allir sitji við sama borð og að samkeppni eigi sér stað á jafnræðisgrundvelli.
  • setja reglur um að greiða skuli öll gjöld beint til viðeigandi yfirvalda í viðkomandi landi/svæði í gegnum rekstraraðila viðkomandi vettvangs, og að þjónustuveitendur innan deilihagkerfisins fái yfirlit frá rekstraraðilum vettvangsins um hagnað þeirra, þar sem gjöld og notkunargjöld fyrir vettvanginn komi sérstaklega fram
  • tryggja að í þeim tilvikum þegar þjónustuveitendur í deilihagkerfinu búi til störf séu þeir bundnir sömu skyldum gagnvart starfsfólki sínu og hefðbundin gistiþjónustufyrirtæki, þ.e. hvað varðar vinnuaðstæður, laun, almannatryggingar, heilbrigði og öryggi á vinnustað, kjarasamninga, réttindi starfsfólks, hæfi og þjálfun o.s.frv.
  • leitast eftir heildstæðri og samhæfðri reglugerð um deilihagkerfið á breiðari grundvelli (t.d. á landsvísu, í Evrópu, á heimsvísu)

EFFAT er reiðubúið að taka höndum saman við atvinnurekendur/aðila vinnumarkaðarins í Evrópu til að fylgjast með þróun deilihagkerfisins í gisti- og ferðaþjónustu og stuðla að réttlátri samkeppni og jafnri meðferð alls starfsfólks í atvinnugreininni.

Deila