Dræm þátttaka í aðalfundi Verk Vest - góð afkoma félagsins
Verkalýðsfélag Vestfirðinga fer ekki varhluta af dvínandi áhuga á málefnum stéttarfélaga í landinu. En mjög dræm mæting var á aðalfund félagsins sem haldin var síðdegis í gær. Hverju er um að kenna er ekki gott að segja, en leiða má að því líkum að neikvæð umræða í garð stéttarfélaga í landinu hjálpi ekki til. Aðalfundur stéttarfélags er æðsta vald og þar eru félagsmenn hvattir til að nýta sér málfrelsi og tillögurétt vilji þeir koma sínum hjartans málum á framfæri. Því miður nýttu einungis 1% félagsmanna þann rétt í gær.
Í skýrslu stjórnar kom fram að afkoma félagsins árið 2015 var kr.7.585.471 sem er lækkun um kr.3.226.413 frá síðasta ári og skýrist að hluta vegna taps á sjúkrasjóði og aukinni hlutdeild félagssjóðs í rekstri skrifstofu. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr.615.122.844 en voru kr.593.011.852 árið 2014. Bókfært eigið fé í árslok 2015 var kr.590.013.314 en var kr.578.757.663 árið 2015. Handbært fé í árslok var kr.184.037.932 og hækkaði um kr.19.834.844 frá síðasta ári. Eiginfjárhlutfall félagsins er 95,92% á móti 97,6% árið 2014. Iðgjaldatekjur félagsins námu um 167,4 milljónum króna árið 2015 sem er um 10% aukning frá árinu 2014. Alls eru félagsmenn 1902 þar af eru greiðandi félagsmenn að jafnaði um 1689 alla mánuði ársins, sem er um 9,3% fjölgun félagsmanna frá árinu 2014. Hægt verður að nálgast eintak af ársreikningi félagsins hér á síðunni innann fárra daga.
Mikil ásókn hefur verið í styrki úr sjúkrasjóði félagsins en í skýrslu formanns sjúkrasjóðs kom fram að sjóðurinn hefði greitt út hátt í 1100 styrki til félagsmanna sem námu alls kr. 70.985.739 sem er um 2 milljónum meira en greitt var inn í sjóðinn. Var árið 2015 því fjórða árið sem gengið var á sjóðinn og lagði stjórn sjúkrasjóðs því til breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs til að draga úr útstreymi úr sjóðnum. Samþykkt breyting á reglugerð sjúkrasjóðs mun taka gildi 1. júní 2016.
Að öðrum hefðbundnum aðalfundarstörfum er helst að nefna að laun fyrir trúnaðarstöf hjá félaginu verða óbreytt þ.e. breytast skv. þróun kjarasamninga félagsins, gjald í vinnudeilusjóð félagsins er einnig óbreytt eða 15% af félagsgjöldum. Ný siðanefnd félagsins var kosin og eru aðalmenn þau; Margrét J. Birkisdóttir, Ari Sigurjónsson og Hilmar Pálsson.
Á fundinum varð nokkur umræða um atvinnu-, kjara- og byggðamál. Samþykkti fundurinn að senda frá sér þrjár ályktarnir um þessi mikilvægu málefni ásamt því að álykta um nýtt kostnaðarþátttökukerfi heilbrigðisráðherra.
Ályktun um atvinnu- og kjaramál
Ályktun um atvinnu- og byggðamál
Ályktun um breytingar á kostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu