Translate to

Fréttir

Eðvarð aðhldsmaður

Hér kemur smásaga sem á sér einhverja stoð í raunveruleikanum en nöfn og stðhættir eru tilbúningur. Því miður er raunveruleiki erlends vinnuafls og ungs fólks á vinnumarkaði alltof oft í líkingu við það sem fram kemur í sögunni.

Eðvarð aðhaldsmaður

Eðvarð var illa fyrirkallaður þennan morguninn, Morgunblaðið var veðurteppt fyrir sunnan og pokarnir í Senseo vélina hans voru búnir. Sumarvertíðin á litla hótelinu hans var að hefjast og hann hafði eytt gærkvöldinu við handsmíðaða hnotuskrifborðið og reiknað út hver launakostnaðurinn yrði þetta sumarið. Ágangur var í störfin hjá honum og hjartað tók aukaslag þegar hann leiddi hugann að dómsmálinu sem hann tapaði síðasta vetur. Honum var ómögulegt að skilja af hverju hann mátti ekki borga tékknesku krökkunum með því að keyra með þau um sveitina eftir að þau höfðu þrifið herbergin. Dómarabjáninn sá ekki verðmætið í því að fá landkynningu frá manni sem ekki var bara stærsti landeigandinn í hreppnum heldur hafði líka verið hreppstjóri þar til eitthvað rétthugsunarlið fór að gera athugasemdir við hryggjarstykkið í kosningabaráttunni hans, bjórpartýið sem hann hélt fyrir krakkana í héraðsskólanum.

En nóg um það, þó að Eðvarð þyrfti stundum að taka hjartamagnyl á kvöldin, ætlaði hann ekki að láta fortíðardrauga skemma framtíðina. Hann ætlaði ekki að keyra um á þessum tveggja ára gamla bíl mikið lengur og árlega golfferðin hans til Spánar skyldi næst verða til fyrirheitna landsins, Flórída. Það var því himnasending þennan tilfinningaþrungna morgun þegar Eðvarð kom á skrifstofuna, settist við tölvuna og sá að hans beið tölvupóstur frá slóvakískum háskóla sem vildi ólmur fá að senda honum nokkra hressa krakka til að læra af stjórnunarháttum hans á hinu háæruverðuga hóteli. Ekki voru gerðar aðrar kröfur um umbun en að fá bedda, morgunmat og eina heita máltíð á dag. Í þann mund sem hann var að fara að svara á þá leið að hann hefði engan áhuga á að hafa einhverja útlendingsbjána hangandi yfir sér fékk hann hugljómun. Nú gat hann loksins snúið á verkalýðsforingjann í stuttermaskyrtunni, hann gat ekki beðið eftir að sjá framan í hann þegar hann myndi segja honum að starfsfólkið hans væru nemar sem væru að læra með því að vinna.

Loks kom maí og Eðvarð tók á móti slóvakísku stúdentunum. Hann lenti í erfiðleikum með að læra og bera fram nöfn þeirra þannig að hann tilkynnti þeim fljótlega á sinni bjöguðu ensku að í ljósi þess myndi hann kalla þau eftir persónum úr Íslendingasögunum, þ.e. Hallgerði, Gretti og Þorgeir. Jafnframt fór hann á bókasafnið og fékk lánaðar valdar Íslendingasögur sem hann afhenti þeim og ætlaðist til að þau læsu. Í fyrstu gekk allt vel. Hallgerður, Grettir og Þorgeir voru dugleg og gerðu það sem þeim var sagt að gera. Fljótlega fóru þau þó að spyrja spurninga sem hann skildi ekki alveg en þau virtust vera ósátt við vistarverur sínar, þau vildu fá herbergi. Fannst hjólhýsið sem hann tók af mági sínum upp í skuld ekki vera fullnægjandi. Eðvarð sagði að ef þau ætluðust til að hann kvittaði upp á staðfestinguna til háskólans úti skyldu þau láta sér þetta duga.

Tíminn leið og samskiptin versnuðu, Hallgerður var hætt að svara því nafni, Grettir reyndist ekki jafn sterkur og nafnið gaf til kynna og Þorgeir kvartaði yfir því að hafa tekið 20 næturvaktir í röð. Til hvers kom þetta fólk hingað eiginlega hugsaði Eðvarð. Hann hafði talið að besti skólinn fyrir þau væri að temja sér gamla góða íslenska vinnusiðferðið, þ.e. vinna sem mest og spyrja sem minnst. Nú var Eðvarð líka farinn að hafa verulegar áhyggjur af bókunum sem hann fékk lánaðar fyrir þau og ákvað einn daginn að fara inn í hjólhýsið og sækja þær. Sér hann þá ekki hvar bækurnar liggja rakar og þvalar við opið á hálfbrotna glugganum sem hann sjálfur hafði brotið í einum af fjölmörgu tilraunum sínum til að innheimta féð sem mágur hans skuldaði honum. Bækurnar voru bersýnilega ónýtar og nú þurfti Eðvarð að fara til helvítis kommúnistans sem var bókasafnsvörður og greiða fyrir þær. Eðvarð leit á þessa vanrækslu sem menningarsögulega árás á sig og sína og fór rakleiðis á fund sýslumannsins. Sýslumaðurinn kvaðst ekkert vilja gera fyrir hann, í raun kom það Eðvarði ekki á óvart, hann hafi verið óttalega linur síðan hann gekk úr Rótarí klúbbnum á sínum tíma.

Eðvarð ákvað þá að slóvakísku krakkarnir væru ekki lengur þess verð að bera þau glæstu nöfn sem hann hafði gefið þeim. Hann ætlaði sér hins vegar ekki að greiða fyrir þessar bækur sem skemmdust, fyrsta innborgunin á Flórída ferðina var á næsta leyti og hann mátti ekki við að missa þessar 12 þúsund krónur sem safnvörðurinn krafði hann um fyrir bækurnar. Eðvarð taldi sig því knúinn til að tilkynna slóvakísku krökkunum að vegna tjónsins sem þau hefðu valdið bæru þau sjálf ábyrgð á því að fæða sig næstu vikuna. Við þetta sprakk allt saman, slóvakísku krakkarnir hreyttu einhverju í Eðvarð á óskiljanlegu hrognamáli og strunsuðu í burtu.

Næsta dag komu svo verkalýðsforinginn, safnvörðurinn, slóvakísku krakkarnir og einhver helvítis sérfræðingur að sunnan og tóku saman allt dót krakkanna og afhendu honum bréf þar sem hann er krafinn um laun fyrir þá 320 tíma sem krakkarnir höfðu unnið síðan þau komu fyrir 5 vikum. Eðvarð sagði þeim að hypja sig af landareigninni hið snarhasta og brunaði beint til lögmannsins síns. Lögmaðurinn las bréfið þungur á brún og tilkynnti svo Eðvarði að líklega yrði ekkert af Flórída ferðinni þetta árið.

Deila