Translate to

Fréttir

Einelti á vinnustöðum

Í dag þann 8 nóvember er hinn árlegi dagur gegn einelti. Tilgangurinn er að vekja okkur til umhugsunar um hvernig eineltismálum er háttað á okkar svæði og hvetja til úrlausnar. Í mínu starfi sem ráðgjafi verð ég því miður vör við að nokkur fyrirtæki á Vestfjörðum hafa ekki verið að bregðast við einelti á réttan hátt, taka ekki í taumana fyrr en starfsmaður hefur hrökklast úr starfi, oft með alvarlegan heilsubrest og oft óvinnufær. Þetta er alvarlegt og leiðir huga okkar að því að einelti er ekki einungis til staðar í skólum landsins heldur einnig meðal okkar á hinum almenna vinnumarkaði. Í tilefni dagsins vil ég hvetja atvinnurekendur til að skoða hvernig málum er háttað innan síns fyrirtækis, kanna hvort til staðar sé skrifleg áætlun um hvernig taka skuli á eineltismálum innan fyrirtækisins og hvort þeirri áætlun sé fylgt eftir. Stöndum saman um að grípa inn í aðstæður þar sem einelti á sér stað, vinnum með vandann og lokum ekki augunum þegar gengið er á tilverurétt okkar samstarfmanna, útrýmum einelti á vinnustöðum og setjum þannig gott fordæmi fyrir börnin okkar.
Fanney Pálsdóttir, ráðgjafi VIRK á Vestfjörðum.
Deila