Eining-Iðja í heimsókn
Hópur úr stjórn og starfsliði Einingar-Iðju á Akureyri heimsótti Verk-Vest um helgina. Vináttusamband hefur verið með félögunum frá stofnun Verk-Vest og þetta er í annað skiptið sem Eining-Iðja kemur í heimsókn.
Hópurinn kom til Ísafjarðar á föstudagskvöld. Að morgni laugardags var farið í gönguferð um Eyrina undir leiðsögn Ragnheiðar Hákonardóttur, sem fræddi gestina um sögu gömlu húsanna sem þar eru mörg. Akureyringar höfðu orð á því að Ísfirðingar sýndu gömlu húsunum sínum sóma og þótti þau hafa verið gerð upp og haldið við af miklum myndarbrag.
Gönguferðin endaði hjá 3X technology, þar sem gestirnir fræddust um starfsemina. Fyrirtækið og dótturfyrirtæki þess framleiða fullkominn tæknibúnað fyrir matvælaframleiðslu sem notaður er víðsvegar um heiminn.
Síðan tók við rútuferð til Bolungarvíkur með fjörlegri leiðsögn Magnúsar Hanssonar. Byrjað var á að skoða Náttúrugripasafn Bolungarvíkur þar sem m.a. má sjá frægan ísbjörn ásamt fjölda annarra spendýra og fugla. Finnbogi Bernódusson fræddi komumenn um það sem helst vakti áhuga. Eftir að hafa fengið hressingu á safninu lá leiðin í Ósvör, þar sem Finnbogi er safnvörður. Þar voru gestirnir leiddir í allan sannleika um sjósókn Íslendinga gegnum aldirnar og ótvíræða forustu og uppfinningar Bolvíkinga frá upphafi, jafnt í þeim efnum sem öðrum. Var ekki frítt við að vantrúarsvip brygði fyrir á einu og einu andliti undir mergjaðri frásögn Finnboga, en henni fylgdi afbragðsgóður harðfiskur og enn betri hákarl, ásamt brennivíni.
Frá Ósvör var svo haldið til Ísafjarðar aftur. Um kvöldið var kvöldverður og samsæti í Edinborgarhúsinu. Ólína Þorvarðardóttir var veislustjóri og fórst það vel úr hendi. Sagðar voru sögur, bæði af Vestfirðingum og Norðlendingum, og verða ekki hafðar eftir hér. Hrólfur Vagnsson og Iris Kramer fluttu tónlist af mikilli snilld, m.a. spilaði Iris á langa og mikla blásturspípu og mun ekki hafa verið leikið á hljóðfæri þeirrar tegundar fyrr hér á landi.
Akureyringar færðu Pétri Sigurðssyni f.v. formanni Verk-Vest forláta göngustafi að gjöf. Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju taldi víst, einhverra hluta vegna, að Pétur myndi nú leggja fyrir sig fjallgöngur og kynnu stafirnir að koma þar að góðum notum síðar, þegar kappinn færi að eldast. Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verk-Vest færði Akureyringum fallega mynd af Ísafirði, sem innlegg í umræðu um fallegasta bæ landsins, sem staðið hefur í bróðerni síðan vináttusamband félaganna var tekið upp. Samsætið stóð fram á nótt með söng og góðri skemmtan.
Akureyringar héldu svo heim á leið kl. 11 á sunnudagsmorgni. Norðanmenn rómuðu allar viðtökur og vænta heimsóknar frá Verk-Vest að tveimur árum liðnum.