Translate to

Fréttir

Ekki horft til vanda tekjulágra varðandi framtíðarskipulag i húsnæðismálum

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilaði skýrslu sinni í gær. Hún leggur til að hér verði tekið upp nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd og er það vel. Þegar kemur að lausnum á vanda þeirra tekjulægstu í samfélaginu skilar verkefnisstjórnin hins vegar auðu.

 

Verkefnisstjórnin leggur til að hér verði tekið upp nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd, þar sem gætt er betra jafnræðis milli lántakenda og fjárfesta í lánaflokkum sem í ríkara mæli byggja á föstum óverðtryggðum vöxtum. Jafnframt leggur verkefnisstjórnin til að staðinn verði vörður um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs í nýja lánakerfinu. Hann verði ein af þeim húsnæðislánastofnunum sem hér starfi á lánamarkaði og verði áfram í eigu ríkisins. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fagnar þessari niðurstöðu enda er með þessu að flestu leiti tekið undir tillögur ASÍ varðandi húsnæðislánakerfið sem kynntar voru fyrir rúmu ári síðan.

 

Þegar kemur að umfjöllun um þarfir og vanda þeirra tekjulægstu í samfélaginu, og sýnilega eru í mestum húsnæðisvanda, er ljóst að verkefnisstjórnin skilar auðu. Þetta telur forseti ASÍ algerlega óforsvaranlegt. Engar tillögur er að finna um það með hvaða hætti stjórnvöld ætli að koma til móts við gríðarlegan vanda þessa fólks sem þarf að nota allt að helming tekna sinna til að borga fyrir húsnæði. Skýtur þetta nokkur skökku við í ljósi þess að ASÍ setti nýlega fram ítarlegar og útfærðar tillögur að nýju félagslegu húsnæðisleigukerfi, sem skilað gæti þeim árangri að tryggja tekjulægstu þjóðfélagshópunum aðgang að húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Deila