Translate to

Fréttir

Elísabet nýr forstöðumaður Listasafns ASÍ

Elísabet Gunnarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Listasafns ASÍ.  Elísabet hefur áralanga reynslu af listmiðlun og rekstri listastofnana bæði hér heima og erlendis.  Hún lagði stund á nám í arkitektúr í Skotlandi og Frakklandi og rak teiknistofuna Kol og salt til margra ára og var jafnfram virkur þátttakandi í rekstri Gallerís Slunkaríkis á Ísafirði.  Frá 2003 stýrði hún listastofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í Noregi og setti síðan á fót og mótaði nýja listastofnun á Fogo Island á austurströnd Kanada og stýrði henni fyrstu árin. Undanfarið hefur Elísabet unnið að ýmsum menningarverkefnum og sett á laggirnar alþjóðlegar gestavinnustofur - ArtsIceland - í samstarfi við Gallerí Úthverfu/Outvert Art Space á Ísafirði.

Sýningarsalur Listasafns ASÍ við Freyjugötu var sem kunnugt ert seldur fyrr á þessu ári. Rekstrarstjórn safnsins stefnir að því að efla vinnustaðasýningar og finna nýjar leiðir til að miðla verkum í eigu safnsins til almennings um land allt.  Rekstrarstjórn Listasafns ASÍ býður Elísabetu velkomna til starfa og væntir góðs af samstarfinu við hana.

Deila