Elísabet nýr forstöðumaður Listasafns ASÍ
Elísabet Gunnarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Listasafns ASÍ. Elísabet hefur áralanga reynslu af listmiðlun og rekstri listastofnana bæði hér heima og erlendis. Hún lagði stund á nám í arkitektúr í Skotlandi og Frakklandi og rak teiknistofuna Kol og salt til margra ára og var jafnfram virkur þátttakandi í rekstri Gallerís Slunkaríkis á Ísafirði. Frá 2003 stýrði hún listastofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í Noregi og setti síðan á fót og mótaði nýja listastofnun á Fogo Island á austurströnd Kanada og stýrði henni fyrstu árin. Undanfarið hefur Elísabet unnið að ýmsum menningarverkefnum og sett á laggirnar alþjóðlegar gestavinnustofur - ArtsIceland - í samstarfi við Gallerí Úthverfu/Outvert Art Space á Ísafirði.
Sýningarsalur Listasafns ASÍ við Freyjugötu var sem kunnugt ert seldur fyrr á þessu ári. Rekstrarstjórn safnsins stefnir að því að efla vinnustaðasýningar og finna nýjar leiðir til að miðla verkum í eigu safnsins til almennings um land allt. Rekstrarstjórn Listasafns ASÍ býður Elísabetu velkomna til starfa og væntir góðs af samstarfinu við hana.