Translate to

Fréttir

Enn á að höggva í velferðarmálin

Nýjustu hugmyndir félagsmálaráðherra um niðurskurð í  velferðarmálum ganga út á  að lækka greiðslur í fæðingarorlofi.  Ekki dugir ráðherra að  boða lækkun hámarksviðmiðs bótanna úr 350.000 í 300.000 á mánuði, heldur á líka að lækka tekjutengda viðmiðið úr 80% í 75%.  Þetta er bein aðför að samfélagslegu framfaramáli sem hefur kostað launþega töluverðar fórnir við að ná fram.  Verði þessar hugmyndir að veruleika  munu þær bitna harðast á ungu fólki og þeim sem eru tekjulágir, þar að auki mun þetta leiða til ennfrekari mismununar karla við töku fæðingarorlofs.
 

Grunnmarkmið laga um fæðingarorlof var að jafna möguleika beggja foreldra á að taka þátt í uppeldi barna sinna, Þessar hugmyndir eru því slæmt skref aftur á bak í jafnréttismálum. Einn ljós punktur er þó í framkomnum hugmyndum en það er að fæðingarorlofið skuli ekki vera stytt.  Með skerðingu bótanna má  þó leiða líkur að því að foreldrar nýti sér ekki allt fæðingarorlofið sem heggur ennfrekar að markmiði laganna um  fæðingarorlof.
 

Þrátt fyrir að þjóðin gangi nú í gegnum erfitt tímabil í efnahagsmálum þá ber stjórnvöldum skylda til að standa vörð um velferðarmálin og hlífa þeim við niðurskurðarhnífnum.  Það eru fyrst og fremst samtök launþega sem hafa náð þeim fram með þrautlausri baráttu og fórnum gegnum tíðina. Samtök launþega verða að spyrna við fótum þannig að hugmyndir um skerðingu fæðingarorlofs komi ekki til framkvæmda í óbreyttri mynd.

Sjá einnig umfjöllun á vef ASÍ

Deila