Translate to

Fréttir

Enn um vinnuskóla

Starfsfólk vinnuskólans hreinsar gangstéttir, brosmilt í blíðunni Starfsfólk vinnuskólans hreinsar gangstéttir, brosmilt í blíðunni
Gangstéttahreinsun - Hvernig myndi bærinn líta út ef þetta fólk væri ekki að störfum? Gangstéttahreinsun - Hvernig myndi bærinn líta út ef þetta fólk væri ekki að störfum?

Í framhaldi af könnun á launum í vinnuskólum og unglingavinnu á Austurlandi sendi Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs starfsgreinafélags erindi til sveitarfélaga á Austurlandi þar sem óskað var eftir skýringum á því að 16 ára unglingum sé greitt kaup undir lágmarkskjörum samninga. Í drögum að samkomulagi LN og SGS frá 2004 um vinnuskóla er kveðið á um að sveitarfélög geti ákveðið einhliða laun í "vinnuskólum" vegna unglinga undir 16 ára aldri. Í drögunum er tekið fram að "vinnuskólar" séu sambland af vinnu og fræðslu og að ungmennin séu yngri en 16 ára.

Ekki hefur verið gengið formlega frá þessu samkomulagi, en í kjarasamningi sem gerður var 2005 voru unglingataxtar afnumdir og skilningur samninganefndar Starfsgreinasambandsins var sá, að 16 ára og eldri í vinnu hjá sveitarfélögum skyldu taka laun skv. töxtum kjarasamningsins.

Eina sveitarfélagið sem hefur sinnt erindi Hjördísar er Seyðisfjörður, án þess þó að svara beint spurningunni um hvers vegna 16 ára unglingum sé greitt kaup undir lágmarkstöxtum. Hins vegar kemur þar fram að bæjarráð hvetur LN og SGS til að ljúka við skilgreiningu vinnuskóla.


Það skal tekið fram, að samanburður á launum vinnuskólabarna getur aldrei orðið tæmandi. Vinnuskólar eiga, eins og fyrr segir, að vera sambland af vinnu og fræðslu og mikill munur getur verið á vægi fræðsluþáttarins milli sveitarfélaga. Ekki liggur heldur fyrir hvernig aldurssamsetning er, t.d. hve stór hluti vinnuskólanema er 16 ára.


Smávægileg villa hefur slæðst inn í samanburð í umfjöllun okkar á dögunum. Þar var sagt að laun 15 ára hjá Vesturbyggð og Tálknafirði væru 73,4% af viðmiðunarlaunum, en talan átti að vera 68,83% eins og auðveldlega má sannfærast um. Meðaltal þessara sveitarfélaga lækkar skv. þessu og verður 72,38%.


Að lokum er lesendum bent á samanburð sem Eining-Iðja hefur gert á launum flokksstjóra vinnuskólanna. Sá samanburður er ekki tæmandi, því hann tekur aðeins til launaflokka og þrepa eins og tekið er fram í umfjöllun félagsins.


Umfjöllun Einingar-Iðju.


Umfjöllun AFLs.

Deila