Translate to

Fréttir

Ertu sjómaður eða vinnur þú bara á sjó?

Dagur sjómanna

Sjómenn eiga sinn dag, sjómannadaginn, sem var mikill hátíðardagur áður fyrr. Haldin var hátið í hverju einasta þorpi, enda var gert út frá hverju einasta þorpi. Síðustu áratugi hefur útgerð færst á færri hendur, sjómönnum hefur fækkað til muna og umfang sjómannadagsins minnkað samhliða því. Tímarnir hafa breyst, bæði útgerð og sjómenn hafa annað um að hugsa en hátíðardag fyrir sjómenn. Samt sem áður eiga sjómenn sinn dag. Sjómenn! Til hamingju með daginn.

Gamli sjómaðurinn

Sjómannslíf var lífsstíll áður fyrr. Sjómenn voru rómaðir fyrir að halda þjóðarbúinu uppi með að sjá því fyrir gjaldeyri og lögðu líf og limi í sölurnar, enda alþekkt að hafið gefur og hafið tekur. Sjómannskonur voru miklir skörungar og stýrðu heimilishaldi, fjárhag og barnauppeldi traustum höndum meðan eiginmaðurinn sótti sjóinn. Í þá tíð var sjómannadagurinn stórhátíð í sjávarbyggðum landsins þar sem allir tóku þátt og skemmtu sér með hetjum hafsins ... sóma þjóðarinnar.

Framfarir breyta sýn á sjómannsstarfið

Í tímans rás hefur sjómennskan þróast. Gamli sjómaðurinn vildi auðvitað komast heill heim, en það var alls ekki sjálfgefið að svo yrði, hafið tók sinn toll. Grettistaki hefur verið lyft í öryggismálum sjómanna síðustu áratugina og mannskaði á sjó nú orðið undantekning. Vitundarvakning hefur verið mikil þegar kemur að öryggisbúnaði skipa, kennslu í að nota búnaðinn, stjórnun um borð, vinnuaðstæðum sjómanna, og síðast en ekki síst öryggishugsun við störf. Aðrar atvinnugreinar hafa náð fótfestu sem gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar, skipaflotinn er orðinn afkastameiri og hinn almenni landsmaður sem ekki lifði þá tíma sem landið byggði á sjávarútvegi lítur oft á hina minnkandi stétt sjómanna sem forréttindapésa, fámennan hálaunahóp. Sjómennska er orðin að starfi í stað lífsstíls, nýi sjómaðurinn er ekki álitinn sjómaður, hann vinnur bara á sjó! En trúið mér, sjómennska ER sjómennska! Þau sem öfundast út í laun sjómanna, farið á sjó og reynið þetta sjálf.

Öryggismál sjómanna

Í nýjum kjarasamningi sjómanna var stigið stórt framfaraskref í öryggismálum sjómanna, en sett var á laggirnar öryggisnefnd sem kemur til með að vinna að öryggismálum sjómanna. Þessi nefnd er ekki hugsuð sem verkefni sem byrjar og endar, heldur er hlutverk nefndarinnar að bæta öryggismál sjómanna til framtíðar. Vinnueftirlitið hefur haft það starf með höndum um áratugaskeið að gera störf í landi öruggari, en hlutverk Vinnueftirlitsins nær bara niður á bryggju, ekki um borð í skip. Þetta er merkur áfangi í að bæta starfsumhverfi sjómanna, að loksins sé það skilgreint hlutverk einhvers að stuðla að bættu öryggi um borð líkt því hlutverki sem Vinnueftirlitið hefur fyrir verkafólk í landi.

Með endurnýjun flotans hafa vinnuaðstæður á sjó batnað til muna, en það eru samt gömul skip í flotanum þar sem vinnuumhverfi er heilsuspillandi og vinnuaðstæður hættulegar. Í raun má segja að sjómenn hafi keypt sér betri vinnuaðstæður með því að taka á sig nýsmíðaálag sem virkar þannig að laun þeirra eru lækkuð um 10% fyrstu sjö árin sem skip er í útgerð (að uppfylltum ákveðnum skilyrðum). Þetta þýðir að til að öðlast ásættanlega vinnuaðstæður um borð þarf sjómaðurinn að greiða 10% launa sinna í sjö ár, þ.e. 70% árslauna samtals, án þess að eignast neitt í staðinn. Í kjarasamningum sjómanna 2017 var samið um að þetta ákvæði félli úr gildi með sólarlagsákvæði, en til 1.mars 2031 verður hægt að skerða laun sjómanna vegna þessa, ekki lengur. Það voru fleiri atriði í þessum kjarasamningi sem mörkuðu tímamót, en sjómenn fengu loksins frítt fæði um borð og frían hlífðarfatnað, þ.m.t. flotvinnugalla, nú þurfa sjómenn ekki lengur að vinna blautir og kaldir sökum lélegs hlífðarfatnaðar. Kjör sjómanna eru að færast til nútíðar.

Kjör sjómanna

Þegar talað er um kjör sjómanna er ekki bara átt við krónur og aura, heldur starfsumhverfi sjómanna í heild sinni, við viljum búa vel að sjómönnum og þurfum þess vegna að hugsa heildstætt. Við verðum að taka inn í myndina alla þætti sjómannsstarfsins, öryggismál, vinnuaðstæður, fjölskyldulíf, tryggingar, og svo að sjálfsögðu launatengda þætti líka.

Launakerfi sjómanna

Hið flókna sjóðakerfi sjávarútvegsins var við lýði um áratugaskeið, en helstu sjóðir voru úreldingarsjóður fiskiskipa, sem varð síðar að Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins, Aldurslagasjóður fiskiskipa, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóður, Tryggingasjóður fiskiskipa, Olíusjóður, Fiskimálasjóður og Aflatryggingasjóður. Greiðslur í þessa sjóði voru fram hjá skiptum þannig að þegar sjómenn skoðuðu aflaverðmæti var það skilgreint sem talan sem eftir stóð. Þess vegna héldu sumir sjómenn að þeir fengju gert upp úr 100% af aflaverðmæti, en málið var talsvert flóknara en svo. Þegar búið var að taka sjóðina frá fengu sjómenn gert upp úr ca. 68% af aflaverðmæti.

Olíuverðsviðmið

Þegar sjóðakerfið var aflagt árið 1987 reiknuðust laun út frá heildaraflaverðmæti að frádregnum sölukostnaði og olíuverðsviðmið kom inn. Þetta nýja kerfi miðaðist við að við eðlilegar aðstæður fengju sjómenn til skipta fyrst 75% og síðar 76% aflaverðmætis, með hreyfanleika stýrðum af olíuverði á heimsmarkaði til hækkunar og lækkunar á bilinu 70% til 80%. Þannig áttu skiptin að vera sanngjörn. Þetta kerfi, eða öllu heldur viðmiðið, gekk sér til húðar með ofurhraða þannig að sjómenn hafa fengið til skipta 70% af aflaverðmæti næstum óslitið síðustu 30 árin, enda hefur afkoma útgerða verið ævintýraleg sem undirstrikar ójöfn skipti.

Endalok olíuverðsviðmiðsins

Í kjarasamningum sjómanna 2024 urðu mikil tímamót. Olíuverðsviðmiðskerfið var tekið út úr samningum og samið um fasta skiptaprósentu auk þess sem sjómenn fá nú aukinn lífeyrissjóð, 3,5% í tilgreinda séreign. Til samanburðar fengu sjómenn, þegar olíuverðsviðmiðið var sett á 1987, 75% aflaverðmætis til skipta auk þess sem útgerðin greiddi 6% mótframlag í lífeyrissjóð. Nú með nýjum kjarasamningum sjómanna koma 69,2% aflaverðmætis til skipta auk þess sem útgerðin greiðir 8% mótframlag í skyldulífeyri, 2% í séreignarlífeyri, og 3,5% í tilgreinda séreign. Eins og fram hefur komið hafði olíuverðsviðmiðið gengið sér til húðar með þeim afleiðingum að skiptaprósentan var svo að segja föst í 70%, það var staðan sem við erum að vinna út frá í aðdraganda undirritunar nýrra kjarasamninga. Að teknu tilliti til mótframlags útgerðar í lífeyrissjóði höfum við tryggt sjómönnum 2% aukið hlutfall af aflaverðmæti til sín.

Skýrar línur

Nú eru línur varðandi kjör sjómanna orðnar skýrari en verið hefur í manna minnum. Laun sjómanna byggja á aflaverðmæti og eru verðtryggð í þeim skilningi. Þótt grettistaki hafi verið lyft í gagnsæi á verðmyndun afla kemur það til með að verða mál málanna hvað sjómenn varðar, það er eini óvissuþátturinn í launum sjómanna. Annað hefur nú verið njörvað niður. Sjómönnum hefur verið tryggður stærri hlutur af aflaverðmæti varanlega og þeir þurfa ekki lengur að velta sér upp úr olíuverði, það hefur einfaldlega ekki lengur áhrif á laun þeirra.

Gamli kúltúrinn lifir

Þrátt fyrir allar þær framfarir sem hér hefur verið minnst á lifir gamli sjómaðurinn enn í sjómönnum samtímans ... eðlilega. Sjómannalögin eru í fullu gildi eins og nýlegir dómar hafa staðfest, og samkvæmt þeim afsala sjómenn sér heilmiklu frelsi og valdi yfir eigin velferð, en þetta vald er framselt til skipstjóra. Sjómenn eru mjög meðvitaðir um þetta, en þeir sem ekki hafa verið á sjó hafa mjög takmarkaðan skilning á hversu greypt þetta er í menningu sjómanna. Sjómennska er lífsstíll!

Við hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Bergvin Eyþórsson,

varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

og fyrrum sjómaður.

 

(Greinina má einnig nálgast í tímaritinu Sjávarafli: https://issuu.com/sjavarafl/docs/sj_varafl_mai_2.tbl_11._rgangur )

Deila