Translate to

Fréttir

Eru sjómenn öruggir á sjó?

Þegar sjómaður stígur á skipsfjöl er hann kominn undir Sjómannalög (nr.35/1985) sem eru mjög ólík lagaumhverfi þeirra sem vinna í landi og þrengja verulega að því sem við hugsum sem sjálfsögð mannréttindi í dag. Skipstjóri hefur "alvald" um borð í skipi sem trompar rétt skipverja, en á móti hefur skipstjóri þá skyldu að gæta hagsmuna skipverja. Líkja má þessu við hugmyndir okkar um herþjónustu þar sem sjómaðurinn, eins og hermaðurinn ber skilyrðislausa hlýðniskyldu gagnvart æðstráðanda, skipstjóra, og réttur hans til mótmæla og til að gæta eigin hagsmuna er mjög takmarkaður. Það er því mikil ábyrgð lögð á herðar skipstjóra og gera sjómannalögin ráð fyrir því að skipstjóri rísi undir þeirri ábyrgð í hvívetna. Öryggi sjómannsins og velferð er því algerlega í hendi skipstjóra.

Þetta er um margt ólíkt því að vinna vinnu í landi þar sem almenn landslög gilda og starfsmaðurinn ber sína ábyrgð sjálfur og hefur alltaf rétt til að gæta síns öryggis og velferðar á hvaða tímapunkti sem er, en það er sá veruleiki sem við þekkjum öll. Hins vegar ætla ég hér að draga fram veruleika sjómanna sem landsmenn almennt hafa takmarkaðan skilning á.

Covid-tíðarandinn

Covid-tíminn var okkur öllum erfiður, það sem við höfðum alla tíð tekið sem sjálfsagðan hlut breyttist allt í einu og við þurftum að aðlaga okkur nýjum veruleika sem helltist yfir okkur á ofur hraða. Enginn vissi neitt, en öll vorum við að gera okkar besta, einar reglur í dag og aðrar á morgun. Fyrirtæki fóru í fordæmalausar aðgerðir til að halda starfsemi sinni gangandi með því að aðskilja starfsmenn og hefta samgang til að fyrirbyggja smit. Skip almennt eru alls ekki hönnuð með það fyrir augum að geta tekist á við slík verkefni.

Aðilar vinnumarkaðarins létu ekki sitt eftir liggja, allir lögðust á eitt til að halda hjólum atvinnulífsins á snúningi og þar voru hagsmunaaðilar sjómanna og útgerða með puttann á púlsinum. Gefnar voru út leiðbeiningar um smitgát og viðbrögð ef grunum væri um smit um borð. Að þessum leiðbeiningum stóðu hagsmunaaðilar útgerða og sjómanna ásamt landlæknisembættinu, en í leiðbeiningum landlæknisembættisins eru ítarlegar leiðbeiningar um viðbrögð ef upp kemur grunur um smit um borð í skipum og gert var ráð fyrir að Landhelgisgæslan taki við stjórn málsins um leið og skipstjóri gerir gæslunni viðvart um málið.

Með þessum hætti var fjöldi aðila búinn að hjálpast að við að fyrirbyggja að upp kæmu smit sem færu úr böndunum, enda vorum við öll í þessu saman.

Hvað gerðist á Júlíusi Geirmundssyni

Í þessum aðstæðum hélt Júlíus Geirmundsson ÍS til veiða laugardaginn 26. september 2020 og ekki vildi betur til en að á öðrum degi veiðiferðarinnar var einn skipverji settur í einangrun í sjúkraklefa skipsins. Til öryggis lét skipstjóri sótthreinsa helstu snertifleti um borð ásamt klefa skipverjans og hafði svo samband við sóttvarnarlækni á viðeigandi heilbrigðisstofnun til að fá álit læknis á því hvort um Covid-smit gæti verið að ræða. Læknirinn benti skipstjóra á að erfitt sé að greina á milli í síma hvers eðlis veikindin væru, auðvitað gæti einn og einn fengið flensu en ef þetta væri Covid myndu allir veikjast hver af öðrum. Síðan tók læknirinn af allan vafa og sagði skipstjóra að koma yrði með manninn í skimun, öðruvísi væri ekki hægt að úrskurða hvort um Covid væri að ræða.

Í kjölfarið óskuðu skipverjar eftir að fara í land í skimun og fengu það svar frá skipstjóra að ekki væri þörf á því, hann hafi verið í sambandi við sóttvarnarlækni sem telji þetta flensu og ekkert að óttast. Á 5. degi veiðferðarinnar var næsti orðinn veikur og á fyrstu vikunni voru fjórir skipverjar í veikindum og næstu daga á eftir veikjast þeir hver af öðrum og glíma margir hverjir við öndunarfæra örðugleika og misstu bragð- og lyktarskyn. Ástandið var orðið þannig að færa þurfti menn milli vakta til að geta haldið vinnslu gangandi vegna fjölda veikra skipverja og voru þeir farnir að skipta á verkum innbyrðis þar sem sumir orkuðu ekki sín störf og pressa var á skipverja að vera ekki lengi í veikindum þar sem vantaði menn á vaktir. Dæmi eru um að menn hafi þurft að sofa í borðsal þar sem klefafélaginn lá í veikindum í klefanum, og í tvígang í veiðiferðinni ræddi skipstjóri við áhafnarmeðlimi hvern og einn til að halda utan um sjúkdómseinkenni. Samt sem áður fullvissar hann áhöfnina um að sóttvarnarlæknir sé inni í málinu og telji þetta flensu. Skipverjar sem kröfðust þess að farið yrði í land í skimun fengu það svar að ekki væri þörf á því þar sem skipstjóri væri í sambandi við sóttvarnarlækni sem teldi stöðuna ekki alvarlega.

Þann 16. október sem var 21. dagur veiðiferðarinnar hafði skipstjóri aftur samband við sóttvarnarlækninn sem hann hafði ekki rætt við í 18 daga. Ákveðið hafði verið að fara í land til að taka olíu og ræddi skipstjóri að senda einhverja áhafnarmeðlima í skimun fyrir Covid-smiti og sendi sóttvarnarlækni þær upplýsingar um einkenni áhafnarmeðlima sem hann hafði skráð. Svar sóttvarnarlæknis var að augljóslega væri um Covid að ræða miðað við gögnin og voru allir skipverjar skimaðir. Skipstjóri tilkynnti áhöfn um sýnatökuna og að ekki mætti pósta upplýsingum um það á samfélagsmiðla og ekki ræða við fjölmiðla.

Laugardaginn 17. október, sléttum þremur vikum eftir brottför, kom skipið til lands í olíutöku og var áhöfn skimuð um borð, enda 20 skipverjar af 25 með einkenni. Sóttvarnarlæknir vildi ekki hafa skipið við bryggju meðan beðið var eftir niðurstöðu og bað um að skipið færi frá bryggju af sóttvarnarástæðum, en ekki mætti fara langt. Skipinu var siglt beint til veiða, en fimm klukkustunda sigling var á miðin. Síðdegis daginn eftir komu niðurstöður úr skimun, staðfest var að Covid smit var um borð og veiðum hætt. Skipstjóri tilkynnti mönnum hverjum og einum um niðurstöðuna og þurftu sumir að klára sína vinnu áður en þeir fengu staðfest að þeir væru Covid-smitaðir. Siglt var af stað í land og skipverjar látnir þrífa skipið. Þegar borin voru upp mótmæli við skipstjóra um að menn þurfi að þrífa skipið með sterkum efnum og anda þeim að sér með mikil öndunarfæra-einkenni gaf skipstjóri þeim sem ekki treystu sér í verkið heimld til að sitja hjá.

Hvernig virkar veikindaréttur sjómanna á sjó?

Í þessu samhengi kom upp umræða meðal skipverja um hver væri þeirra réttur til veikinda. Í sjómannalögum segir að "ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum". Staðreyndin er sú að öll verk sem til falla verður að vinna, það er verkefni áhafnarinnar. Ef einn eða fleiri treysta sér ekki til vinnu þurfa hinir sem eftir standa að vinna á 150% afköstum án aukagreiðslu, en í þessu tilfelli voru þeir sem eftir stóðu alls ekki full frískir. Til að taka af allan vafa stýrir skipstjóri vinnuálagi á dekkmenn með veiðum, meðan fiskur bíður vinnslu er skýr krafa um að aflinn sé unninn hvernig svo sem menn fari að því eða hversu sprækir menn séu.

Sjópróf

Stéttarfélög skipverja tóku saman höndum og kröfðust sjóprófa. Tilgangur sjóprófa er að draga fram staðreyndir um hvað gerðist með því að safna vitnisburðum skipverja og þeim sem að málinu komu fyrir dómi þar sem mönnum er uppálagt að segja satt og rétt frá. Sjópróf eru hinsvegar ekki til úrlausnar sakarefnis. Svo fór að forsvarsmenn útgerðar og skipstjóri báðust undan því að bera vitni þannig að þeirra sýn hefur enn ekki litið dagsljósið, en 16 skipverjar auk sóttvarnarlæknis báru vitni.

Þrír lögmenn spurðu aðila spjörunum úr, lögmaður stéttarfélaganna, lögmaður skipstjóra og lögmaður útgerðar, en áherslur lögmanna voru ekki þær sömu. Lögmaður stéttarfélaga spurði spurninga sem drógu fram staðreyndir og upplifun skipverja af veiðiferðinni, en lögmenn útgerðar og skipstjóra lögðu mikla áherslu að fá draga fram viðurkenningu áhafnarmeðlima á því að þeir hefðu getað gripið í taumana með því að fara á bakvið skipstjóra sem þeir hafi ekki gert (enda refsivert brot á sjómannalögum) og að menn hefðu haft frelsi til að neita að vinna vegna veikinda.

Skipverjar upplifðu margir hverjir að lögmenn hafi verið mjög ágengir og leiðandi og komið skipverjum úr jafnvægi sem er mjög óheppilegt þar sem sjópróf eru til að skrá söguna. Sagan hefur samt verið skráð með þessum annmörkum sem komið hafa fram.

Skipstjóri dæmdur og sviptur réttindum tímabundið

Lögreglustjóri mat það sem svo að skipstjóri hafi gerst brotlegur gegn 2.mgr. sjómannalaga nr.35/1985 með því að hafa ekki flutt sjúkling í land vegna smithættu. Hins vegar féll hann frá ákæru vegna brots gegn 1.mgr. sömu laga sem segja að skipstjóri skuli sjá um að skipverji sem veikist eða slasist fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi, þar með talið hjúkrun, læknishjálp og lækningaefni. Féll dómur eins og Lögreglustjóri lagði til þar sem skipstjóri fékk sekt auk þess að vera sviptur skipstjórnarréttindum í fjóra mánuði, samt þannig að hann megi gegna stöðu stýrimanns á meðan.

Afleiðingar fyrir einstaka skipverja

Svo fór að sumir skipverja glíma enn við afleiðingar ákvörðunar skipstjóra, hvort sem litið er til framfærslu og/eða lífsgæða. Margur landinn hefur orðið fyrir slíkum heilsubresti þrátt fyrir að vinna í landi og hafa óskertan aðgang að heilbrigðisþjónustu og að hafa tækifæri til að takast á við sjúkdóminn án þess að vera í einangrun úti á sjó. Sem betur fer vinnur tíminn með þessum mönnum og þeir braggast hægt og rólega, en hefði verið hægt að afstýra því með réttum viðbrögðum?

Sá umræddra skipverja sem einna verst kom undan þessari veiðiferð varð miklu veikari en hann hefði þurft að verða. Hann, eins og fleiri skipverjar, fór þess ítrekað á leit við skipstjóra að farið yrði í land til að meta heilsufar áhafnar og vísaði til þess að vegna gamallar sögu um lungnaveikindi gæti það verið honum hættulegra en öðrum að fá Covid, sem hann fékk svo. Skipverjinn varð fár veikur, mjög verkjaður, var með óráði um tíma og hefur aldrei orðið jafn mikið veikur um ævina. Eftirlit með honum í þessum veikindum var í algeru lágmarki og sneri aðeins að því að fylgjast með hvort hann væri orðinn vinnufær. Eftir veiðiferðina glímir hann auk líkamlegra einkenna við mikla áfallastreituröskun og telur engar líkur á að hann treysti sér aftur á sjó.

Útgerð skipsins bauð skipverjum að fyrra bragði upp á sálrænan stuðning í kjölfar veiðiferðarinnar ásamt því að greiða skipverjum kauptryggingu þar sem skipinu var ekki haldið strax til veiða aftur. Með þessu lágmarkaði útgerð skaða þeirra sem komu hvað best undan þessum hremmingum, en þeir sem gerðu það ekki hafa borið harm sinn að mestu í hljóði.

Krafist bóta

Skipverjinn hefur krafist miskabóta vegna þessa úr hendi skipstjóra, útgerðarstjóra og framkvæmdastjóra vegna þessarar meðferðar þar sem hann telur hafa verið hrein ógn við líf og heilsu sína. Allir aðilar höfnuðu kröfum skipverjans og málinu var stefnt til Héraðsdóms.

Héraðsdómur sýknaði útgerðarstjóra og framkvæmdastjóra á grundvelli sjómannalaga, en samkvæmt þeim ber skipstjóri alla ábyrgð. Skipstjórinn var aftur á móti dæmdur fyrir stórfellt gáleysi sem valdið hafi skipverjanum skaða, en miskabætur voru dæmdar 400.000 krónur með dráttarvöxtum. Málinu hefur verið áfrýjað og er beðið fyrirtöku hjá Landsrétti.

Skipverjinn hefur einnig krafist viðurkenningar á bótarétti hjá tryggingarfélagi útgerðarinnar vegna þess tjóns, líkamlegs, andlegs sem og fjárhagslegs, sem hann hefur orðið fyrir vegna þessa. Það mál er enn í ferli.

Eru sjómenn öruggir á sjó?

Stóra myndin nær utan um miklu meir en hér hefur verið rætt. Hagsmunaaðilar útgerðar- og sjómanna vinna þétt saman í að fækka slysum á sjó með miklum árangri. Það sem hefur ekki verið mikið í umræðunni, hvorki fyrr né síðar, er það tjón sem dómgreindarleysi skipstjóra getur valdið sjómönnum eins og gerðist í þessu tilfelli. Skipstjóri er alvaldur á sjó en öllu valdi fylgir jú ábyrgð, ábyrgð sem dómstólar hafa nú staðfest, öryggi sjómanna er því algerlega í hendi skipstjóra þeirra.

Spurningin um hvort sjómenn séu öruggir á sjó leiðir því af sér aðra spurningu: Er skipstjórinn þinn traustsins verður?

 

Greinin birtist líka í 4.tbl. Sjávarafls 2023

Deila