Eyraroddi til fyrirmyndar
Það hefur vakið athygli að Fiskvinnslan Eyraroddi á Flateyri fékk nýverið viðurkenningu frá Vinnueftirlitinu fyrir fyrirmyndar vinnuverndarstarf, ásamt leikskólanum Óskalandi í Hveragerði. Í tilkynningu Vinnueftirlitsins segir um Eyrarodda: "..... fylgir skýrri stefnu í vinnuverndarmálum og hefur lokið gerð áhættumats, sem er hluti af öryggis- og heilbrigðisáætlun þess. Áhættumatið var unnið af öryggisverði og öryggistrúnaðarmanni fyrirtækisins með þátttöku allra starfsmanna og í framhaldi af því var ráðist markvisst í úrbætur á áhættuþáttum með góðum árangri."
Okkur þótti þetta forvitnilegt, því ekki mun algengt að fiskvinnslufyrirtæki fái sérstakar viðurkenningar af þessum toga. Tíðindamaður vefsins hafði því samband við Teit Einarsson framkvæmdastjóra Eyrarodda og spurði hann nánar út í málið.
Teitur sagði að áhersla fyrirtækisins á vinnuverndarmál væri eiginlega sjálfsprottin. Kveikjan hefði verið ábendingar umdæmisstjóra Vinnueftirlitsins og starfsmanna um ýmislegt sem betur mætti fara, ásamt virkri öryggisnefnd. Einkum væri öryggisvörður áhugasamur, enda slökkviliðsstjóri á Flateyri og því fróður um öryggismál. Sú stefna var tekin að fylgja settum reglum og hafa öryggismál í sem bestu lagi og þar var áhættumat fyrsta skref. Öryggisnefnd fyrirtækisins fór yfir alla þætti starfseminnar í samstarfi við fulltrúa Vinnueftirlitsins og leitað var til starfsmanna um ábendingar og hugmyndir. Í framhaldinu var svo skipulega bætt úr þeim ágöllum sem áhættumatið leiddi í ljós.
Teitur telur þó ekki að þar með sé allt fullkomið hjá Eyrarodda. Hann segir vinnuverndarmál verkefni sem stöðugt þurfi að vera vakandi yfir, ekki síst í fiskvinnslu, þar sem aðstæður eru síbreytilegar og mjög misjafnar frá einu vinnusvæði til annars. Fylgja þurfi settum reglum og gera ráð fyrir starfi að öryggis- og heilbrigðismálum sem sjálfsögðum kostnaðarlið í rekstrinum. Reyndar megi búast við að drjúgur hluti þess kostnaðar skili sér aftur með heilbrigðari og ánægðari starfsmönnum og færri óhöppum.
Teitur segir að sem atvinnurekandi telji hann sér skylt að bjóða starfsfólki sínu upp á öruggan og heilbrigðan vinnustað þar sem því líður vel og til þess að svo megi verða þurfi öflugt vinnuverndarstarf.
Verk-Vest vefurinn óskar Eyrarodda til hamingju með viðurkenninguna sem fyrirmyndarfyrirtæki á sviði vinnuverndar. Afstaða stjórnenda og starfsmanna ber vott um að hún er fyllilega verðskulduð.
Vonandi fylgja fleiri fyrirtæki á félagssvæði okkar í kjölfarið.