Translate to

Fréttir

Fanney Pálsdóttir ráðgjafi starfsendurhæfingarjóðs VIRK komin til starfa

Fanney á fullu við að koma sér fyrir Fanney á fullu við að koma sér fyrir
Tölvan komin í samband Tölvan komin í samband

Við gerð kjarasamninga 2008 var ákveðið að koma á fót sameiginlegum endurhæfingarsjóði vinnuveitenda og verkalýðshreyfingarinnar.  Í dag heitir sjóðurinn starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK og er rétt að benda á heimasíðu sjóðsins í því tilefni www.virk.is .  Megin hlutverk sjóðsins er að vera með snemmbær inngrip í veikinda- eða slysaferli þannig að einstaklingurinn fái þau úrræði sem nýtast honum sem best til að komast út á vinnumarkaðinn á ný.  Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun sjóðsins hefur farið fram mikið skipulags og uppbyggingarstarf. Eitt af verkefnum sjóðsins er að gera samninga við sjúkrasjóði stéttarfélaganna um ráðningu endurhæfingarráðgjafa.

Á Vestfjörðum var komið á samstarfi á milli fjögurra stéttarfélaga, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Verkalýðs og sjómannafélagi Bolungavíkur og Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði um ráðningu ráðgjafa sem mun hafa aðstöðu hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga í Pólgötu 2 á Ísafirði. Sú sem félögin hafa ráðið til verksins er Fanney Pálsdóttir sjúkraþjálfari, en hún er ráðin í 25% starfshlutfalli fyrst um sinn. Fanney hefur starfað við sjúkraþjálfun bæði á Ísafirði og í Bolungavík undanfarin ár og mun gera svo áfram samhliða ráðgjafastarfinu hjá félögunum.

Fyrsti vinnudagur Fanneyar er í dag og hefur hann að mestu farið í að koma sér fyrir í starfsaðstöðunni í Pólgötunni. Fanney mun einnig vera til staðar á skrifstofum hinna félaganna sé þess óskað. Ákveðið hefur verið í samráði við Fanney að hún verði til ráðgjafar á þriðjudögum frá kl 08:00 - 16:00 í síma 4563190 eða 4565190. Stéttarfélögin óska Fanney alls velfarnaðar í þessu nýja starfi sem við öll vonum að skili félagsmönnum betri árangri í endurhæfingarmálum.

Deila