Translate to

Fréttir

Farið yfir úttektarskýrslu með fulltrúaráði

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga boðaði fulltrúaráð félagsins, sem fer með atkvæðarétt á aðalfundi Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, til fundar í gærkvöldi. Til fundarins var einnig boðuð stjórn Lífeyrissjóðs Vestfiðringa en vegna anna komst framkvæmdastjóri sjóðsins ekki til fundarins. Tilefni fundarins var að stjórn sjóðsins færi yfir helstu atriði úttektarskýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna frá 3. febrúar síðastliðnum með sérstaka áherslu á úttekt rannsóknarnefndarinnar á Lífeyrissjóð Vestfirðinga.

Stjórnarformaður sjóðsins, Kristján Jóhannsson, fór yfir aðfraganda hrunsins og þann vanda sem sjóðurinn stóð frammi fyrir við fall bankanna. Ljóst má vera á innihaldi skýrslunnar að ekki var unnt að ætla stjórn sjóðsins eða starfsmönnum að hafa gert sér grein fyrir hveru höllum fæti bankarnir stóði og í hvað stefndi. Þá fór stjórn sjóðsins einnig yfir þá vinnu sem farið hefur fram við breytingar á innra skipulagi sjóðsins frá árinu 2010 þegar Fjármálaeftirlitið gerði úttekt á starfsemi sjóðsins.

Á fundinum var einnig lög fram eftirfarandi greinagerð frá stjón Lífeyrissjóðs Vestfirðinga.

„Greinargerð vegna skýrslu úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna

Stjórn Lífeyrissjóðs Vestfirðinga hefur að undanförnu kynnt sér skýrslu úttektarnefndar lífeyrissjóða, sem birt var þann 3. febrúar 2012. Á undanförnum ársfundum sjóðsins hefur ítarlega verið farið yfir afkomu sjóðsins og afskriftir verðbréfa. Sjóðfélögum hefur því verið ljóst að hrun íslenska fjármálakerfisins árið 2008 hafði mikil áhrif á afkomu sjóðsins eins og lífeyrissjóða almennt.

Almennt um lífeyrissjóðina

Í skýrslu úttektarnefndarinnar er farið yfir þær skipulagsbreytingar, sem hún telur að gera eigi almennt í lífeyrissjóðakerfinu. Helstu atriðin, sem þar eru nefnd eru sem hér segir:

1. Lögð verði sérstök áhersla á ábyrga áhættustýringu sjóðanna
2. Heimild til innlendra hlutabréfakaupa verði takmörkuð vegna veikburða markaðar
3. Farið verði í heildarendurskoðun laga um lífeyrissjóði, sérstaklega um fjárfestingar.
4. Heimild til fjárfestinga í óskráðum bréfum verði lækkuð á ný
5. Endurskoðendur skoði gæði fjárfestinga og eignasamsetningu
6. Njörva betur niður í lögum þann mun, sem má vera á milli eigna og skuldbindinga áður en tryggingafræðileg athugun leiði til breytinga.
7. Vantar túlkun í lögin um hvað eru óvenjulegar eða meiriháttar ákvarðanir.
8. Samskipta- og siðareglur verði endurskoðaðar reglulega


Einnig er farið yfir ýmislegt, sem fór úrskeiðis hjá sjóðunum að mati nefndarinnar og þar er m.a. nefnt
1. Of mikið af skuldabréfum voru eingreiðslubréf
2. Varhugaverðar fjárfestingar í lánshæfistengdum skuldabréfum, víkjandi lánum og erlendum skuldabréfavafningum.
3. Vikmörk í fjárfestingarstefnum voru of víð
4. Sumir sjóðanna fóru óvarlega í gjaldeyrisvörnum
5. Sjóðunum ekki ljós hættan af of miklum fjárfestingum í samstæðum og tengdum fyrirtækjum.
Athugasemdir nefndarinnar við starfsemi Lífeyrissjóðs Vestfirðinga
Athugasemdir nefndarinnar við starfshætti Lífeyrissjóðs Vestfirðinga eru að mestu samhljóða því, sem talið er að hafi farið úrskeiðis hjá sjóðum almennt. 


Helstu atriðin, sem nefnd eru sem hér segir:


1. Vikmörk í fjárfestingarstefnu veruleg: Stjórn sjóðsins hefur rætt um að þrengja þessi mörk í fjárfestingarstefnu fyrir árið 2013.
2. Eignastýringaraðilar fylgjast ekki með að sjóðurinn fari út fyrir mörk í fjárfestingarstefnu: Tveir aðilar sjá um eignastýringu á hluta verðbréfasafns. Þeir hafa skilað skýrslum nokkrum sinnum á ári, en sjóðurinn mun fylgjast nánar með þessum söfnum framvegis.
3. Óvenjuleg kaup ekki borin undir stjórn ef eignastýringaraðilar kaupa: Sjá fyrri lið, sjóðurinn mun fylgjast nánar með þessu.
4. Ófullkomnar reglur um setu stjórnarmanna í stjórnum félaga, sem sjóðurinn á í: Hefur ekki reynt á þessar reglur, þar sem sjóðurinn er yfirleitt ekki það stór að hann eigi rétt á manni í stjórn.
5. Samskipta- og siðareglur, stjórn ekki nefnd í númeruðum köflum, einungis starfsmenn. Ekki sagt hver á að skera úr um brot á reglunum.: Stjórnin mun endurskoða þessar reglur.
6. Lítil umræða innan stjórnar um stjórnenda- og eignatengs í íslensku atvinnulífi: Þetta átti við um sjóðina almennt og kom í rauninni ekki í ljós fyrr en rannsókn hófst á þessum fyrirtækjum.
7. Gallaðir skilmálar eingreiðslubréfa: Fyrirtækjaskuldabréf eru varla til núna, en sjóðurinn mun varast galla í skilmálum, ef þessi flokkur kemur aftur til.
8. Tapaði á víkjandi og lánshæfistengdum skuldabréfum - heimild til fjárfestinga hæpin: Ekkert stendur í lögum um að óheimilt sé að kaupa slík bréf.
9. Nefndin telur ekki unnt að ætla stjórnendum að hafa mátt gera sér grein fyrir hversu höllum fæti bankarnir stóðu.

 

Lífeyrissjóður Vestfirðinga


Samkvæmt úttekt nefndarinnar tapaði Lífeyrissjóður Vestfirðinga 10,4 milljörðum króna í hruninu. Vissulega er hér um mikið tap að ræða, en benda má á að tapið eitt og sér gefur ekki rétta mynd af þróun mála. Stjórn sjóðsins hefur reyndi að vera eins varfærin í fjárfestingum og mögulegt var miðað við aðstæður hverju sinni. Lögð var áhersla á að vera með eins dreift eignasafn og mögulegt var því ávöxtun einstakra flokka verðbréfa er misjöfn milli ára. Eignasafnið samanstóð aðallega af skuldabréfum, innlendum hlutabréfum og erlendum verðbréfum.

 

Í þessu sambandi má benda að í kjölfar hrunsins kom verðbólguskot og gengislækkun, sem urðu til þess að skuldabréf og erlend verðbréf hækkuðu í verði á meðan hlutabréf hrundu. Árin á undan hafði þessi verið öfugt farið þegar innlend hlutabréf hækkuðu mikið, en skuldabréf og erlend verðbréf áttu undir högg að sækja m.a. vegna hækkunar á gengi íslensku krónunnar. Þess ber einnig að geta að sjóðurinn byrjaði að minnka hlutafjáreign sína um mitt ár 2007.

Þegar litið er á heildarmyndina kemur í ljós að hrein eign til greiðslu lífeyris í lok ársins 2010 er 26,2 milljarðar króna og hafði aðeins lækkað um 1,2 milljarða króna frá árslokum 2007. 


Réttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóði Vestfirðinga voru aukin verulega á árunum 2005-2007, en í kjölfar hrunsins reyndist nauðsynlegt að skerða þau aftur. Þau eru nú þau sömu og var árið 2004 og líta verður til þess að lífeyrir er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs. Lífeyrir hefur hækkað frá árinu 2004 um 68% í krónum talið, sem er nánast það sama og launavísitalan hefur gert á sama tíma.

 

Fjármálaeftirlitið kannaði starfsemi sjóðsins snemma árs 2010 og helstu athugasemdir, sem komu þar fram voru varðandi vöntun á verkferlum og ýmsum reglum. Stjórn og starfsmenn sjóðsins hafa síðan farið yfir allar reglur og verkferla sjóðsins. Settar hafa verið reglur um innheimtu iðgjalda, upplýsingagjöf til sjóðfélaga , upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar og áhættureglur. Nú er verið að ganga frá öryggisreglum vegna upplýsingakerfa og auk þess hafa starfsreglur stjórnar og framkvæmdastjóra verið endurskoðaðar. Fyrir liggur nú að undangenginni vinnu Landssamtaka Lífeyrissjóða að setja reglur um áhættustýringu fyrir sjóðinn."

Deila