Translate to

Fréttir

Félagsdómur úrskurðar um starfssvið matsveina á skipum

Kjarasamningar sjómanna innihalda ákvæði sem er ætlað að verja matsveina á skipum gegn óhóflegu vinnuálagi. Þar er kveðið á um að matsveinn eigi rétt á aðstoð háseta séu 25 menn eða færri í áhöfn, en séu 26 menn eða fleiri í áhöfn er gert ráð fyrir aðstoðarmanni matsveins um borð. Ákveði útgerð að hafa ekki aðstoðarmann matsveins um borð skal greiða matsveini laun aðstoðarmanns ofan á sín laun fyrir að takast á hendur aukið vinnuálag.

Ljóst er að einu gildir fyrir matsveininn hvort fjöldi manna í mat tilheyri áhöfn eður ei, enda hefur verið almennur skilningur á þessu fyrirkomulagi gegnum tíðina að matsveinum hefur verið greitt fyrir þetta aukna vinnuálag burtséð frá því hvort um áhafnarmeðlimi hafi verið að ræða eður ei. Samt sem áður kom upp ágreiningur um þetta atriði milli Verkalýðsfélag Vestfirðinga og útgerðar á félagssvæðinu sem ekki náðist sátt um og átti félagið því ekki aðra kosti en að vísa málinu til Félagsdóms til úrskurðar.

Til að varpa betur ljósi á ágreininginn er metið sem svo að vinnuálag á matsvein fari fram úr hófi þegar hann þarf að fæða fleiri en 25 manns í veiðiferð og þess vegna komi til þess að hann fái aðstoðarmann (eða launaauka) þegar fleiri en 25 manns eru í áhöfn. Það sem gerist samt er að af og til eru fleiri um borð sem telja ekki til áhafnar, en það geta verið eftirlitsmenn, viðgerðarmenn, eða jafnvel farþegar. Ekki er ágreiningur um hvort greiða þurfi matsveini launaauka séu fleiri en 25 manns í áhöfn, en þegar kemur að öðrum aðilum um borð telur útgerð skipsins sér ekki skylt að greiða launaauka fyrir aukið vinnuframlag matsveins.

Megin niðurstaða Félagsdóms í þessum ágreiningi er að fallast á túlkun útgerðarinnar, þ.e. að ekki beri að greiða matsveini kjarasamningsbundinn launaauka séu áhafnarmeðlimir 25 eða færri, óháð fjölda manna um borð. Útgerðin er sýknuð af kröfu Verk Vest um að greiða skuli matsveini laun aðstoðarmanns matsveins í þeim tilfellum sem fjöldi manna um borð fer yfir 25 manns sé 26. maðurinn ekki áhafnarmeðlimur. Til að komast að þessari niðurstöðu þurfti Félagsdómur að skilgreina hvað væri átt við með áhöfn.

Skilgreining Félagsdóms á hugtakinu áhöfn felur í sér að hugtök í kjarasamningi verði að túlka með sama hætti allsstaðar í kjarasamningnum. Í því sambandi er vísað til skiptahlutar, en aflaverðmæti er skipt milli útgerðar annars vegar og áhafnar hins vegar. Eini aðilinn sem er um borð og telst til áhafnar án þess að taka hlut er aðstoðarmaður matsveins.

Hlutverk matsveins samkvæmt kjarasamningi er að matreiða fyrir áhafnarmeðlimi sem Félagsdómur hefur skilgreint með fyrrgreindum hætti, enga aðra. Samkvæmt meginreglu vinnuréttar ber að greiða fyrir vinnuframlag og felur niðurstaða Félagsdóms það í sér að vinna matsveins sem skapast við að matreiða fyrir aðra en áhafnarmeðlimi sé aukið vinnuframlag umfram það sem samið er um í kjarasamningi og fyrir það ber útgerð að greiða sérstaklega.

Vegna einmitt þessarar niðurstöðu Félagsdóms er ljóst að sjómannafélög verða að taka upp samningaviðræður við útgerðarmenn um sérstakar greiðslur vegna vinnu matsveins við að matreiða fyrir alla aðra aðila um borð en áhafnarmeðlimi. Sé ekki samið um slíkt áður en skip hefur sjóferð með fleiri en áhafnarmeðlimi um borð verður útgerð að útvega þessum aðilum fæði án aðkomu matsveins skipsins.

Deila