Félagsfundur um stöðu kjaraviðræðna
Ákveðið hefur verið að boða til opins félagsfundar vegna þeirra stöðu sem komin er upp í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Rétt er að rifja upp að forsvarsmenn atvinnurekenda höfnuðu réttmætum kröfum verkafólks á fundi hjá sáttasemjara í byrjun mánaðarins. Voru höfð upp stór orð um ábyrgðarleysi verkalýðshreifingarinnar að setja fram slíkar kröfur sem ættu sér enga stoð í raunveruleikanum. Þjóðfélagið allt færi á annan endan og var efnahagshrunið sagðir smámunir einir í samanburði við afleiðingarnar sem hækkun lágmarkslauna 12 þúsund verkamanna á landsbyggðinni í 300 þúsund á mánuði myndu hafa á efnahagslífið í landinu.
Ríkissáttasemjari hafði boðað til fyrsta fundar deiluaðila í dag, en vegna veðurs og ófærðar hefur fundinum verið frestað til föstudags 13. febrúar. Ljóst má vera ef viðbrögð forsvarsmanna SA verða áfram á sama veg þá megi búast við verkfallsátökum eftir miðjan mars.
Því er boðað til félagsfundar Verk Vest á Hótel Ísafirði mánudaginn 16. febrúar kl.20.00
Dagskrá:
- Staðan í kjaraviðræðum
- Kosning verkfallsstjórnar
- Breyting á úthlutunarreglum Vinnudeilusjóðs
- Önnur mál
Áríðandi að félagsmenn mæti og sýni samstöðu með réttmætum launakröfum verkafólks.