Translate to

Fréttir

Félög innan SGS skipuleggja harðari aðgerðir

Sextán aðildarfélög Starfsgreinasambandsins (SGS) hafa tilkynnt um víðtækar verkfallsaðgerðir sem bresta munu á í lok þessa mánaðar og í maímánuði, hafi ekki náðst samningar fyrir þann tíma. Um er að ræða harðari og umfangsmeiri aðgerðir en áður höfðu verið kynntar. Í stað svæðisbundinna vinnustöðvana þá hefjast allsherjarverkföll um allt land. Aðgerðirnar ná til yfir 10 þúsund félagsmanna aðildarfélaga SGS og munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt.

Atkvæðagreiðsla vegna verkfallsboðunarinnar hefst mánudaginn 13. apríl kl. 8.00 og henni lýkur viku síðar á miðnætti 20. apríl.

Meginkrafan af hálfu SGS hefur verið hækkun grunnlauna sem liggja nú í rúmum 200 þúsund krónum fyrir fulla vinnu og að lágmarkslaun fari þannig upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Krafan er sett fram meðal annars í ljósi mikils hagnaðar fyrirtækja og hækkana til hinna hæst launuðu í þjóðfélaginu.

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS: „Fólk er bara orðið reitt. Það er ekki hægt að lifa sómasamlegu lífi á þessum launum. Þegar við bætast hækkanir á matarskatti og hærri húsnæðiskostnaður þá er ljóst að staða verkafólks er orðin óviðunandi og það nær einfaldlega ekki að framfleyta fjölskyldum sínum. Félagsmenn okkar eru harðduglegt fólk sem gengur óþreytt til sinna verka gegn því að fá sanngjörn laun. Almenningur er á okkar bandi um að þetta séu ekki boðleg laun fyrir fulla vinnu – rúmar tvö hundruð þúsund krónur á mánuði. Miðað við forsendur þær sem atvinnurekendur hafa sett fram þá er verið að bjóða þessu fólki upp á nokkra þúsund kalla í hækkun. Það sættir sig enginn við í okkar hópi og við erum því nauðbeygð að grípa til þessara aðgerða. Við vonum auðvitað í lengstu lög að það megi forða verkföllum. Þau eiga alltaf að vera neyðarúrræði. Það er hins vegar enginn bilbugur á okkar fólki og við erum búin undir að þetta geti orðið löng orrusta.“

Skipulag verkfallsaðgerðanna:

30. apríl 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.

6. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 6. maí).

7. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 7. maí).

19. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 19. maí).

20. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 20. maí).

26. maí 2015 – Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.

Ástæðan fyrir þessu fyrirhuguðu hertu verkfallsaðgerðum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins eru m.a. tilraunir Samtaka atvinnulífsins til að tefja fyrir atkvæðagreiðslum launþegasamtaka og mikill baráttuvilji meðal félagsmanna aðildarfélaga Sambandsins. Upphaflega var áætlað að hefja vinnustöðvanir um miðjan þennan mánuð en vegna úrskurðar Félagsdóms varð að hefja atkvæðagreiðslu um aðgerðirnar upp á nýtt.

Deila