Translate to

Fréttir

Fjölbreytt námskeið í boði hjá Fræðslumiðstöðinni

Landnemaskólinn í heimsókn hjá Verk-Vest Landnemaskólinn í heimsókn hjá Verk-Vest
Útskrift Grunnmenntaskólans á Þingeyri Útskrift Grunnmenntaskólans á Þingeyri

Vefnum hefur borist tvíblöðungur frá frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, þar sem sagt er frá námskeiðum sem verða í boði á norðanverðum Vestfjörðum á næstunni. Þar kennir margra grasa, allt frá stjörnuskoðun til verkefnastjórnunar. Sérstaka athygli vekur opinn kynningarfundur um námsskrána Aftur í nám, sem ætluð er fullorðnu fólki sem á við lestrar- og skriftarörðugleika að etja. Þeir sem þannig er ástatt um urðu oft illa úti í menntakerfi okkar áður fyrr, þegar þekking manna á lesblindu var afar takmörkuð. Núorðið er alkunna að þeir sem glíma við þessa erfiðleika hafa oftar en ekki greind yfir meðallagi og ákaflega ríka sköpunargáfu. Það er þess vegna hagur samfélagsins alls, ekki síst nú á krepputímum, að nýta þessa hæfileika til fulls.

Fleira er frásagnarvert í bígerð hjá fræðslumiðstöðinni; t.d. námskeið í ferðaþjónustu, smáskipanám og tölvu og tungumálanám svo fátt eitt sé nefnt. Síðast en ekki síst verður boðið upp á námskeið um fjármál og heimilisbókhald, þar sem stuðst er við forritið BÓTHILDI sem Súðvíkingar hafa notað með góðum árangri. Verk-Vest mun útvega félagsmönnum sem sækja námskeiðið eintak af forritinu ókeypis. Forritið er líka til reiðu á skrifstofu félagsins handa þeim félagsmönnum sem áhuga hafa, að sjálfsögðu ókeypis. Heimilisbókhald ætti að að koma að góðum notum þegar kreppir að og minna fé verður til umráða. 

Auðvitað eru svo í gangi á norðanverðum Vestfjörðum Íslenska fyrir útlendinga, Landnemaskólinn og annað nám sem nú telst til fastrar dagskrár Fræðslumiðstöðvarinnar, að ógleymdum undirbúningi að samstarfsverkefni við Iðuna, Bættu um betur, sem er raunfærnimat ætlað fólki sem starfar við iðngreinar án fagréttinda og á að hvetja það og aðstoða við að fá sveinspróf.

Ekki er svo að skilja að ekkert sé um að vera hjá Fræðslumiðstöðinni á Ströndum og sunnanverðum Vestfjörðum. Á Hólmavík er í gangi Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum sem er framhald af Grunnmenntaskólanum sem margir þekkja. Á Patreksfirði stendur yfir Íslenska fyrir útlendinga og áætlað er að Landnemaskólanum verði fram haldið seinna í vetur. Þá eru áætluð prjónanámskeið á Bíldudal og Hólmavík ef næg þátttaka fæst.

Eins og sjá má af þessu stendur starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða með miklum blóma um þessar mundir. Þar hjálpar vafalaust til nýtt og rúmgott húsnæði á Ísafirði og ekki spillir einvalalið starfsmanna, bæði á Ísafirði og nýjum starfsstöðvum á Patreksfirði og Hólmavík.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga hvetur félagsmenn til að nýta sér fjölbreytta þjónustu Fræðslumiðstöðvarinnar. Margt af því sem þar er í boði er til þess fallið að auka möguleika á vinnumarkaðnum, sem getur skipt höfuðmáli nú þegar óvissa um framtíð og starfsöryggi nagar samfélagið, auk þess sem allt nám er uppbyggilegt og bætandi í sjálfu sér.

Við minnum á að allt nám hjá Fræðslumiðstöðinni veitir rétt til styrkja úr starfsmenntasjóðum félagsins, í hlutfalli við þann rétt sem hver og einn hefur áunnið sér. Um sjóðina má lesa undir Fræðslumál hér til vinstri.

Deila