Translate to

Fréttir

Formannafundur SGS: Hvalveiðar í sátt við ferðaþjónustu

Reglugerð fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um hvalveiðar er mjög umdeild. Ferðaþjónustuaðilar, einkum þeir sem starfa við hvalaskoðun, eru uggandi um sinn hag. Þeir telja veiðarnar skaða ímynd Íslands sem ferðamannalands, sérstaklega hvað hvalaskoðun varðar. Þeir sem sjá fram á vinnu við veiðar og vinnslu á sínu svæði blása á slíkar áhyggjur og telja enga hættu á að ferðaþjónusta bíði skaða af. Aftur á móti muni verða til 300 ný störf vegna veiðanna og ekki sé hægt að hafna þeim í kreppunni.
Málið var rætt á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands í gær.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt með þorra atkvæða gegn einu:

,,Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, haldinn 5. febrúar 2009, leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda í þágu atvinnulífsins og verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið. Ábyrgar veiðar byggja á vísindalegu mati, markvissu eftirliti, hagkvæmni og umhverfissjónarmiðum. Í þessu sambandi eru hvalveiðar einnig mikilvægar, en gæta verður þess að þær veiðar séu stundaðar í sátt og í samráði við ferðaþjónustugreinar og hvalaskoðunarfyrirtæki. Ferðaþjónustan er afar þýðingarmikil og vaxandi frumatvinnugrein á Íslandi, sem á í samkeppni við erlendan markað og þarf á jákvæðri ímynd að halda. Fundurinn telur að vel megi samræma sjónarmið beggja greinanna, þannig að sem flestir geti vel við unað.

Engin umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um það hverjir fái að veiða hval, hvenær, hvar og hvernig. Fundurinn fordæmir þess vegna illa ígrunduð vinnubrögð fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, að úthluta völdum einstaklingum hvalveiðileyfum til fimm ára með útgáfu reglugerðar á síðasta starfsdegi sínum. Slíkt er óhæfa."

Deila