Formannafundur SGS á Húsavík
Á fundinum kom fram að félögin væru komin af stað í undirbúning með ýmsum hætt, víða eru haldnir fundir með trúnaðarmönnum, gerðar kannanir á vinnustöðum og haldnir opnir fundir með starfsfólki. Með þessum hætti er sem flestum gefið færi á að koma sínum sjónarmiðum að í áherslum fyrir kjarasamningana sem eru lausir í lok nóvember. Samhljómur var meðal formanna um að bíða þyrfti átekta til að sjá hvort samið yrði til lengri eða skemmri tíma og færi það að stórum hluta eftir því hvernig ríkisstjórnin hyggst stýra efnahagsmálum. Þá þarf að tryggja það að launahækkanir sem um er samið fari ekki jafn óðum út í verðlagið í gegnum hækkun gjaldskráa hins opinbera og almennt vöruverð.
Eftir að hafa haldið fjórar kjaramálaráðstefnur í vetur fara aðildarfélögin vel nestuð inn í vinnu við kröfugerð en stefnt er að því að sameiginleg kröfugerð Starfsgreinasambandsins verði tilbúin í síðasta lagi 1. október. Þess má geta að Eining-Iðja í Eyjafirði hefur þegar veitt Starfsgreinasambandi Íslands umboð til kjarasamningagerðar en fleiri félög ræða fyrirkomulag samninga í sínum röðum. Rétt er að taka fram að Verk Vest mun standa fyrir kjaramálaráðstefnu laugardaginn 31. ágúst næst komandi þar sem loka hnykkur verður lagður á kröfugerð félagsins og hvort samningsumboð verði veitt til landssambanda sem félagið á aðild að.
Ályktað um ferðaþjónustu
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) haldinn á Húsavík 3. til 4. júní 2013 lýsir áhyggjum af stöðu starfsfólks í ferðaþjónustu í upphafi sumarvertíðarinnar. Ef miðað er við reynslu undanfarinna ára er ljóst að töluvert er um kjarasamningsbrot í greininni og undanskot frá sköttum og skyldum. Formannafundur Starfsgreinasambandsins skorar á atvinnurekendur, starfsfólk og stjórnvöld að gæta þess að farið sé eftir leikreglum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett sér og láta vita ef misbrestur er á.
Greinargerð:
Ferðaþjónustan er ein af hornsteinum íslensks atvinnulífs og sífellt fleiri félagsmenn innan aðildarfélaga SGS vinna í greininni. Það er samfélagslega mikilvægt að greinin sé farsæl og innan hennar sé farið að lögum og reglum. Starfsfólk á að vera tryggt í störfum sínum og greinin skal skila eðlilegum sköttum til þjóðarbúsins. Meðal algengra mála sem koma inn á borð stéttarfélaganna í tengslum við ferðamannavertíðina eru:
- Greiðsla jafnaðarkaups, slíkt er ekki til í kjarasamningum heldur skal greiða dagvinnu og yfirvinnu eða vaktaálag ef um vaktavinnu er að ræða.
- Að vaktir hafi ekki skilgreint upphaf og endi, starfsfólk viti hvenær vinnutíma lýkur. Þess skal gætt að skipulag vakta sé kynnt fyrir starfsfólki samkvæmt reglum um vaktskrá. Vaktavinna sé tekin fram í ráðningasamningi og vakt skuli unnin í samfelldri heild.
- Að ungt fólk sé á lægra kaupi en samið er um en þeir sem verða 16 og 17 ára á árinu eiga strax að fá greitt miðað við 16 og 17 ára taxta.
- Að ekki séu greiddir skattar og önnur opinber gjöld af starfsfólki og þar með brotin landslög.