Translate to

Fréttir

Formannafundur SGS ályktar um Efnahags-kjara og heilbrigðismál.

Mikil samstaða og samhugur var á formannafundi SGS meðal formanna aðildarfélaga sambandsins, þar sem staða efnahagsmála og undirbúningur kjaraviðræðna var til umfjöllunar.  Megin markmið komandi kjarasamninga verður að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Menn höfðu hins vegar miklar áhyggjur af þeim skorti á trausti sem ríkir í samfélaginu og tefur fyrir því brýna endurreisnarstarfi sem vinna þarf.

 

Heilbrigðisþjónustan þarf að vera skilvirk og hagkvæm. Tryggja verður öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð. „Hvers konar fljótræði eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum fjárlagafrumvarpsins er ekki til þess fallið að skila árangri," segir í ályktun um heilbrigðiskerfið sem samþykkt var einróma á fundinum ásamt ályktun um kjaramál.

Ennfremur segir í ályktun um efnahags- og kjaramál "Hugmyndir um almenna lækkun skulda sem á að greiða með eftirlaunum verkafólks er aðför að lífeyrissparnaði og á það er ekki hægt að fallast. Fundurinn telur hins vegar að lagfæra þurfi gjaldþrotaskiptalögin þannig að einstaklingar sem missa húsnæði sitt við nauðungarsölu dragi ekki með sér  húsnæðisskuldir eftir þá sölu."

Lesa má ályktanirnar í heild sinni á heimasíðu Starfsgreinasambandsins.

Deila