Formannafundur SGS skorar á HB Granda
Fundur formanna aðildarfélaga SGS sem haldinn var í dag skorar á HB Granda að láta launahækkanir upp á 13.500 krónur koma strax til framkvæmda. Fundurinn samþykkti einróma eftirfarandi ályktun:
„Sú ávörðun stjórnar HB Granda, að leggja til að greiða hluthöfum 8% arð er forkastanleg og óásættanleg með öllu í því ástandi sem nú ríkir. SGS skorar á fyrirtækið að láta launahækkanir upp á 13.500 krónu koma strax til framkvæmda.
Vissulega eru til fyrirtæki, eins og HB Grandi, sem vel geta staðið undir þeim kjarabótum sem hefðu komið til framkvæmda 1. mars s.l. ef kjarasamningar hefðu verið framlengdir. Formannafundurinn hvetur þess vegna þau fyrirtæki sem standa vel, að láta launataxtahækkanirnar koma til framkvæmda strax.
Launafólk á Íslandi hefur ekki vikist undan því að bera ábyrgð í samfélaginu. Á sama hátt krefst formannafundurinn þess að atvinnulífið í landinu, með samtök sín í farabroddi, axli einnig samfélagslega ábyrgð."