Translate to

Fréttir

Forseti ASÍ vandar stjórnvöldum ekki kveðjurnar

Í pistli á heimasíðu ASÍ fer Gylfi Arnbjörnsson forseti sambandsins yfir það samningsbrot sem ríkisstjórnin hefur samþykkt með afgreiðslu á skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar vísar forsetinn fyrst og fremst í afnám verðtryggingar persóuafsláttar og niðurfellingu á 3000 kr sérstakri hækkunar persónuafsláttar sem átti að taka gildi þann 1. janúar 2011. Þá rekur forsetinn baráttu ASÍ fyrir því að verðtryggingu persónuafsláttar verði komið á að nýju eftir að hún var afnumin 1989. Þá minnir hann einnig á að það voru Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð sem höfðu ítrekað tekið undir þessar kröfur ASÍ.

Hér á eftir fer pistill forseta ASÍ.

Að haga vindi eftir seglum í skattamálum

Ríkisstjórnin hefur með stuðningi þingflokka sinna ákveðið að afnema verðtryggingu persónuafsláttar og fella niður sérstaka 3.000 kr. hækkun persónuafsláttar þann 1. janúar 2011. Hvoru tveggja er hluti af samningum ASÍ við fyrri ríkisstjórnir, en sérstaka hækkun persónuafsláttarins er meira segja hluti af núgildandi kjarasamningum sem renna út í lok nóvember á næsta ári. Miðstjórn ASÍ hefur mótmælt þessu harðlega og krafist þess að ríkisstjórnin standi við gerða kjarasamninga.


Nú hefur efnahags- og skattanefndar Alþingis lokið umfjöllun sinni fyrir 2. umræðu þessa frumvarps og hefur meirihlutinn ákveðið að láta þessa gagnrýni og kröfu ASÍ sem vind um eyru þjóta. Er það miður, því eitt er að standa ekki við gerða kjarasamninga en alvarlegra er að ASÍ háði harða baráttu fyrir því að taka aftur upp verðtryggingu persónuafsláttar í fjölda ára eftir að hún var afnumin árið 1989. Vinstri hreyfingin grænt framboð og Samfylkingin hafa ítrekað tekið undir þessa kröfu okkar. Í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í júní 2006 tókst ASÍ að breyta skattastefnu þáverandi ríkisstjórnar með því að hún félli frá lækkun skatthlutfallsins og hækkaði þess í stað persónuafsláttinn sérstaklega og verðtryggði hann síðan varanlega. Í kjarasamningum ASÍ í febrúar 2008 var aftur samið við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um sérstaka 7.000 króna hækkun. Þessir samningar hafa tryggt, að persónuafsláttur hefur hækkað um ríflega 15.000 krónur á mánuði. Þess má geta að öll þessi lagafrumvörp voru afgreidd með atkvæðum allra flokka.


Í umsögn meirihluta nefndarinnar - sem væntanlega rammar inn stefnu þessarar ríkisstjórnar í þessu máli - kemur fram að ,,Töluverðar athugasemdir voru gerðar við afnám vísitölubindingar persónuafsláttar við neysluverð og á það bent að kaupmáttur almenns launafólks hefði lækkað í kjölfar verðbólgu. Enn fremur var því haldið fram að hækkun tekna þeirra hefði að óbreyttum lögum orðið meiri enda væri í frumvarpinu fallið frá hækkun persónuafsláttarins árin 2010 og 2011 samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í tekjuskattslögum. Á móti var bent á að hækkun persónuafsláttar kæmi öllum launamönnum jafnt til góða, óháð efnahag, en ekki aðeins þeim tekjulægstu og að þrepaskiptur tekjuskattur væri betra tæki til tekjudreifingar. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur jafnframt til að skatthlutfall þrepa verði tengt við launavísitölu en þó einungis til hækkunar.‘‘


Þetta er stórmerkilegt. Nú er það svo að ASÍ er sammála stjórnarflokkunum um að taka upp þrepaskipt skattkerfi - ASÍ setti þá kröfu fyrst fram árið 1996. Það er hins vegar mikill og alvarlegur misskilningur þingmanna meirihlutans, að stilla þrepaskattinum og verðtryggingu persónuafsláttar upp sem valkosti sem útiloki hvorn annan. Sá valkostur sem við stóðum frammi var að til að ná neðra skattþrepinu stóð til að fresta verðtryggingunni um ein áramót - sem þýðir minni hækkun persónuafsláttar núna gegn lægra skatthlutfalli - en ekki um hver áramót hér eftir. Afar mikilvægt er að eftir að lægra þrepið hefur verið tekið upp fylgi persónuafsláttur verðlagi því að öðrum kosti mun skattbyrði lágtekjufólks halda áfram að hækka!

Það á lítt skylt við áform um að verja þá tekjulægstu að láta persónuafslátt (og þar með skattleysismörkin) vera óbreyttan að nafnverði um ómunatíð en tengja síðan milli- og efri tekjumörkin (200 og 450 þús.kr.) við launavísitölu. Þetta er að mínu mati gróf mismunun á milli tekjuhópa sem mun leiða til þess að skattbyrði lágtekjufólks fari sífellt fara hækkandi (eins og reynslan var milli 1990-2006!), á meðan skattbyrði milli- og hátekjuhópa er varin vegna tengingar markanna við launavísitölu. Það sem átti að vera aðgerð til að skapa meiri sátt milli tekjuhópa er í rauninni rofinn með þessu. Ég skora á þingmenn meirihlutans að koma í veg fyrir þetta, almennt launafólk treysti ykkur til að standa vörð um þá tekjulægstu og bregðist þið því trausti mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir trúverðugleika ykkar til langs tíma. Sérstaklega þegar það er haft í huga að það var í tíð vinstri stjórnar sem verðtrygging persónuafsláttar var afnumin árið 1989.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.  

Deila