Translate to

Fréttir

Fræðslusjóðir festir í sessi með lögum

Fræðslusjóðirnir hafa reynst ómetanleg hjálp við íslenskunámskeið fyrir útlendinga. Myndin er af hópi sem útskrifaðist af slíku námskeiði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða 2008.

Mynd: Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Fræðslusjóðirnir hafa reynst ómetanleg hjálp við íslenskunámskeið fyrir útlendinga. Myndin er af hópi sem útskrifaðist af slíku námskeiði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða 2008. Mynd: Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Á föstudaginn samþykkti Alþingi frumvarp félagsmálaráðherra sem skyldar alla atvinnurekendur til að greiða samningsbundin gjöld í fræðslusjóði atvinnulífsins. Í lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 var kveðið á um skyldu til að greiða til sjúkra- og orlofssjóða og nú nær lagaskyldan einnig til fræðslusjóða.

Nokkur brögð munu hafa verið að því að atvinnurekendur hafi neitað að greiða til fræðslusjóða á þeim forsendum að þeir væru ekki í samtökum atvinnurekenda og því undanþegnir greiðsluskyldu þar sem fræðslusjóðir væru ekki nefndir í lögunum um starfskjör launafólks frá 1980. Skylt er þó að geta þess að nátttröll af því tagi eru í miklum minnihluta, a.m.k. á starfssvæði Verk-Vest; langflestir atvinnurekendur hafa skilið hve mikilvægir sjóðirnir eru, bæði launafólki og fyrirtækjum, og greitt gjaldið refjalaust.

Það er mikið fagnaðarefni að starfsmenntasjóðirnir skuli nú loks hafa verið festir í sessi með lögum, þegar liðin eru 10 ár frá því að fyrst var samið um framlög til þeirra á almenna vinnumarkaðnum.

Enn er tekist á um greiðsluskyldu atvinnurekenda og lífeyrissjóða í Starfsendurhæfingarsjóð og standa vonir til að greiðsluskylda til hans verði von bráðar lögfest á sama hátt, í samræmi við fyrirheit stjórnvalda.

Deila