Translate to

Fréttir

Framabraut

Verk-Vest hefur borist tilkynning frá Impru á Nýsköpunarmiðstöð um námskeið fyrir konur sem kynnu að hafa hug á að takast á við ný verkefni í starfi.
Tilkynningin fer hér á eftir:

"Nýtt nám fyrir konur sem vilja takast á við nýja færni í starfi hefst  á Ísafirði í lok september.  Námið nefnist Framabraut og er samstarfsverkefni Impru á Nýsköpunarmiðstöð og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.  
Framabraut er þrískipt nám, ætlað konum með ýmiskonar bakgrunn úr atvinnulífinu og ekki er gerð krafa um að þátttakendur hafi lokið formlegri menntun.  Náminu er ætlað að styrkja konur á vinnumarkaði og hvetja þær til að greina möguleika sína og styrk til að takast á við ný verkefni, hvort sem þær vilja efla sig í núverandi starfi eða auka möguleika sína á að skipta um starfsvettvang.  Námið er þrískipt;  Í fyrsta hlutanum er lögð áhersla á að byggja upp sterka sjálfsmynd og öðlast aukið sjálfstraust til að takast á við nýja færni í námi og starfi.  Í öðrum hlutanum er farið í almenna tölvunotkun og í þeim þriðja verða sérhæfð námskeið í samráði við áhuga þátttakenda. Námið hefst mánudaginn 29. september og verður kennt frá 18-22.  Reiknað er með að kenndar verði 75 kennslustundir, eða um það bil 10 mánudaga.  Umsóknarfrestur er til og með 25. september og námskeiðsgjaldið er 20.000 krónur.
Nánari upplýsingar og skráning er á heimasíðu Impru www.impra.is,  Einnig er hægt að hafa samband við Örnu Láru Jónsdóttur, verkefnisstjóra Impru á Nýsköpunarmiðstöð í síma 4504050 eða á netfanginu arnalara@nmi.is og/eða Dagnýju Sveinbjörnsdóttur fulltrúa hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í síma 4565011 eða á netfanginu dagny@frmst.is."

Félagskonur Verk-Vest sem sækja námskeiðið eiga auðvitað rétt á styrk frá fræðslusjóðum sem félagið er aðili að, svo framarlega sem greitt hefur verið af þeim til viðkomandi sjóðs og þær hafa ekki fullnýtt rétt sinn á árinu.

Deila