Translate to

Fréttir

Framkvæmdarstjórn SGS - nú þarf að koma verkunum af stað !

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins áréttar að Stöðugleikasáttmálinn hafi ekki verið undirritaður upp á grín. 
Á fundi framkvæmdarstjórnar SGS þann 2.september síðast liðinn var stöðugleikasáttmáli aðila vinnumarkaðarins mjög til umræðu. Einhugur ríkti meðal framkvæmdarstjórnar um að ekki væri við unað að Alþingis og embættismenn drægu lappirnar í þeim vanda sem blasir við verði ekki farið að koma brýnustu verkum sáttmálans af stað. Á heimasíðu SGS má lesa umfjöllun sem framkvæmdarstjórinn ritar í kjölfar fundarins, en hér fyrir neðan er niðurlag þeirrar umfjöllunar.
 

"Framkvæmdastjórnin bendir á að ómarkvissar og seinvirkar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins skili litlum sem engum árangri. Þeim vinnubrögðum verður að breyta og það getur ríkisstjórnin hæglega gert. Vandi heimilanna vex hröðum skrefum og staða þeirra sem komin eru í greiðsluvanda fer versnandi. Örvænting blasir víða við. Undanfarna mánuði hefur þessi aðkallandi vandi fengið litla athygli stjórnvalda. Það er óásættanlegt og ekki í samræmi við Stöðugleikasáttmálann. Þar var gert ráð fyrir tillögum í samráði við aðila vinnumarkaðarins um viðbótarúrræði eftir því sem þörf krefur og sú þörf er sannanlega brýn. Framkvæmdastjórnin ítrekar að verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á að allar leiðir til lausnar fjárhagsvanda heimilanna verði skoðaðar og hún hefur lýst sig reiðubúna til að taka þátt í þeirri vinnu. Málið þolir ekki bið."

Deila