Frestun kjarasamninga staðreynd - kauptrygging hækkar
Á fimmta tímanum í gær náðist samkomulag á milli ASÍ og SA um frestun á endurskoðun og framlengingu kjarasamninga. Þetta þýðir að þær launahækkanir sem hefðu átt að koma inn þann 1. mars frestast. Í samkomulaginu felst að ákvörðun um framlengingu og endurskoðun skal vera lokið eigi síðar en 30. júní á þessu ári. Þrátt fyrir frestun launahækkana náðist mikilvægur áfangi er varðar kauptryggingu lægstu launa. Frá og með 1. mars hækkar lágmarkstekjutrygging úr kr.145.000 í kr.157.000 eða 12.000 krónur sem verður lágmarks tekjutrygging fyrir fullt starf ( 173,33 tíma á mánuði). Þetta þýðir að lágmarkstekjutryggingin er komin upp fyrir gunnatvinnuleysisbætur sem eru í dag kr.149.523 á mánuði. Önnur ákvæði kjarasamningsins koma til framkvæmda þar með talin lenging orlofs.
VERK VEST aðili að framlengingu
Vegna fréttaflutnings um að 5 stéttarfélög væru ekki sátt við þessa leið og það jafnvel gefið í skin að þau væru að kljúfa sig út úr samfloti með öðrum félögum í ASÍ , þá skal það hér tekið fram að aldrei stóð til að Verkalýðsfélag Vestfirðinga myndi rjúfa samstöðu í hreyfingunni. Má í því samhengi vísa í samþykktir og ályktanir stjórnar og trúnaðaðarráðs félagsins í þeim efnum þar sem hvatt er til samstöðu. Þrátt fyrir að niðurstaðan sem nú er komin fram sé ekki sú sem Verk Vest hefði óskað sér, þá er félagið hluti af lýðræðislegum samtökum þar sem sjónarmið félagsins naut eingöngu stuðnings minnihluta aðildarfélaga ASÍ. Þetta þýðir að framlengingin tekur einnig til félagsmanna Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Samkomulag um breytingar á kjarasamningi á milli aðildarfélaga ASÍ og SA
Áherslur ASÍ og SA í tengslum við frestun endurskoðun kjarasamninga
Greinagerð samninganefndar ASÍ vegna frestunar á endurskoðun kjarasamninga