Translate to

Fréttir

Frítt yoga fyrir atvinnulausa

Eins og skýrt var frá hér á vefnum fyrir nokkrum dögum hefur Verk-Vest nýlega gert samninga við Stúdíó Dan og Ísafjarðarbæ um ókeypis líkamsrækt fyrir þá sem hafa misst atvinnu sína, svo atvinnuleitendum gefist kostur á að rækta sál og líkama þegar þrengir að. Jafnframt hefur öðrum sveitarfélögum á félagssvæðinu verið sent erindi í þá veru að þau hjálpi til á sama hátt.
Í gær kom á skrifstofu félagsins Martha Ernstsdóttir, sem nýlega setti hér á Ísafirði á stofn yogamiðstöðina Ljósið þitt. Martha vill leggja sitt af mörkum til að aðstoða þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á kreppunni og býður atvinnulausum upp á ókeypis yogatíma.

Yoga er ævagömul aðferð til að slaka á og losna við spennu, öðlast andlega og líkamlega og vellíðan og liðka og styrkja líkamann. Atvinnumissir er áfall sem eðlilega hefur í för með sér streitu og raskar jafnvægi. Þarna býðst kjörið tækifæri til að öðlast hugarró og ná áttum og styrkja og liðka skrokkinn í leiðinni.

Félagið færir Mörthu alúðarþakkir fyrir samfélagsvitund og góðvild og hvetur atvinnulausa félagsmenn til að nýta sér þetta myndarlega boð.
Ljósið þitt er á Silfurgötu 5 á Ísafirði og síminn er 863 8125.

Deila