Translate to

Fréttir

Fundað með félagsmönnum Verk Vest vegna gjaldþrots West seafood

Frá Flateyri. Mynd ruv.is Frá Flateyri. Mynd ruv.is

Fiskvinnslufyrirtækið West Seafood á Flateyri hefur verið útskurðað gjaldþrota, en fyrirtækinu hafði áður tekist að forða sér frá gjaldþroti í mars á þessu ári. Með gjaldþrotinu hefur í raun verið höggvið á langvarandi óvissu hjá starfsfólki fyrirtækisins um áframhaldandi rekstur þess. Fyrr á þessu árið hljóp Verk Vest undir bagga og lánaði starfsfólki vegna vangoldinnar orlofslauna fyrirtækisins sem námu um 7 milljónum króna.

Um 20 manns störfuðu hjá fyrirtækinu fyrir sumarlokun en Verk Vest hefur ekki fengið staðfest nákvæmlega hve margir voru á launaskrá þegar fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota. Verk Vest rekur þegar nokkurn fjölda mála fyrir félagsmenn er varða kjarasamningsbrot West Seafood gagnvart félagsmönnum og bætast þau mál við þær kröfur sem hljótast af gjaldþrotinu. Af þeim orsökum má leiða líkum að því að gjaldþrotið snerti á fjórða tug félagsmanna Verk Vest. Þar sem stéttarfélagsiðgjöld falla ekki undir Ábyrgðasjóð launa líkt og lífeyrissjóðsiðgjöld má áætla að töpuð stéttarfélagsiðgjöld til Verk Vest nemi um 6 milljónum króna með dráttarvöxtum en félagið hefur undanfarna mánuði staðið í ítrekuðum innheimtum á iðgjöldum gagnvart fyrirtækinu án árangurs.

Verk Vest hefur boðað til fundar með starfsfólki mánudaginn 16. september til að fara yfir réttarstöðu starfsmanna við gjaldþrot. Einnig mun fulltrúi frá Vinnumálastofnun vera viðstaddur til að upplýsa starfsfólk um réttindi vegna atvinnuleysisbóta. Fundurinn verður haldinni í Gunnukaffi á Flateyri og hefst kl.13.00.

Starfsfólki fyrirtækisins er bent á að leita til Verk Vest sem mun aðstoða félagsmenn vegna málsins.

Deila