Translate to

Fréttir

Fundur stjórnar og trúnaðarráðs - tilboð SA.

Frá trúnaðarráðsfundi Verk Vest Frá trúnaðarráðsfundi Verk Vest

Stjórn og trúnaðarráð Verk Vest hefur verið boðað til fundar vegna tilboðs sem SA hefur lagt fram í viðræðum um stöðugleika á vinnumarkaði. Á formannafundi SGS hjá sáttasemjara í gær var farið yfir stöðuna og það tilboð sem SA hefur lagt fyrir samninganefnd ASÍ. Tilboðið gengur út á að tvískipta launahækkunum sem áttu að koma inn þann 1. mars sl. þannig að frá 1. júlí hækki taxtalaun á almennum markaði um kr.6.750, þann 1. nóvember hækki laun aftur um kr.6.750 og þá muni launaþróunartrygging upp á 3,5% einnig koma til framkvæmda. Þá vilja SA fresta launahækkun sem átti að taka gildi 1. janúar 2010 til 1.september 2010.

 

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að staðan er mjög erfið og fáir kostir góðir, en af mörgum slæmum þá er það tilboð SA sem nú er upp á borðinu þó illskásti kosturinn.

Þá er nokkur vegur frá því að sjái til lands í viðræðum við ríkið, bæði er varðar kjarasamninga ríkisstarfsmanna og aðkomu ríkisstjórnar að stöðugleikasáttinni. Þá á einnig eftir að ná lendingu gagnvart sveitafélögunum, en kjarasamningur starfsmanna þeirra er laus frá og með 1. september nk.

 

Verkalýðshreyfingin þarf á öllum sínum samtakamætti að halda til að ná fram ásættanlegri niðurstöðu sem flestir geti unað. Þar verða þeir sem hafa borð fyrir báru að huga að þeim sem minna hafa umleikis. Nánar verður fjallað um niðurstöðu stjórnar og trúnaðarráðs hér á vefnum þegar hún liggur fyrir.

Sjá einnig umfjöllun um viðræðurnar á MBL.IS

Deila