Translate to

Fréttir

Fyrsta bindi sögu vestfirskrar verkalýðshreyfingar komið út

Eins og kunnugt er hefur Sigurður Pétursson sagnfræðingur unnið að því undanfarin ár að koma upp skjalasafni verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum og rita sögu hennar. Nú er 1. bindi sögunnar komið úr prentun og nefnist það Vindur í seglum. Þar er fjallað um tímabilið 1890 - 1930. Fyrsta bindið skiptist í þrjá hluta sem nefnast: 1. hluti Nýtt samfélag 1870 - 1910, 2. hluti Ný viðhorf, ný viðmið: Ísafjörður 1910 - 1923 og 3. hluti Uppbygging og útbreiðsla 1923 - 1930. Þar er dregin upp glögg mynd af vestfirsku samfélagi á tímabilinu og hraðri þróun þess, bæði vegna framfara í tækni og verkmenningu og ekki síður vegna nýrra hugmynda í þjóðfélagsmálum.
Sagt er frá fyrstu verkalýðsfélögiunum sem spruttu upp úr þessum jarðvegi og baráttu félagsmanna við harðsnúið vald atvinnurekenda. Framan af miðaði hægt, stundum varð félögunum aflfátt í viðureign við andstæðinga sem höfðu öll ráð verkafólksins í hendi sér, en með tímanum óx hreyfingunni ásmegin. Með óbilandi staðfestu, hugsjónaeld, og áreiðanlega vænan skammt af vestfirskri þrjósku að vopni unnu frumherjarnir jafnt og þétt á og í bókarlok hefur ekki aðeins verkalýðshreyfingin náð öruggri fótfestu; hugsjónir jafnaðarmanna hafa einnig rutt sér til rúms á hinu pólitíska sviði og Ísafjörður er orðinn "rauði bærinn".

Bókin er 506 síður, prentuð á vandaðan pappír og prýdd fjölda ljósmynda sem margar hverjar hafa ekki birst áður. Útgefandi er Alþýðusamband Vestfjarða. Bókaútgáfan Skrudda bjó bókina til prentunar og annast dreifingu.

Menningarráð Vestfjarða, Þjóðhátíðarsjóður, Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar og Múrarafélag Ísafjarðar styrktu útgáfuna.

Deila