Translate to

Fréttir

Fyrsta skref í átt til aðgerða launþega

Blása þarf til sóknar gegn atvinnurekendum Blása þarf til sóknar gegn atvinnurekendum

Það er nokkuð ljóst að Samtök atvinnulífsins (SA) ætla ekki að koma á móts við verkalýðshreyfinguna (ASÍ) í kröfum þeirra um skammtímasamninga. Nokkurs misskilnings virðist gæta hjá forsvarsmönnum atvinnulífsins hvað varðar hugmyndir ASÍ um aðkomu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninganna. Venjan hefur verið sú að launþegahreyfingin hefur lagt fram launakröfur beint til SA sem hafa kostnaðarmetið þær út af borðinu og gjarnan skotið í kaf strax í byrjun. Þá hefur aðkoma ríkisstjórnarinnar jafnan verið á lokasprettinum í formi einhvers bónuss í skatta og velferðarmálum.   


Við gerð þessara kjarasamninga átti að taka alveg nýjan vinkil á viðræðurnar, megináhersla af hálfu launþega var að létta þrýsting við launakröfur á hendur SA og knýja ríkisstjórnina til að koma fyrr að samningaborðinu með sitt útspil. Með því yrði kostnaður atvinnulífsins vegna kjarasamninganna nú minni en ella. Því miður var ekki skilningur á þessari leið hvorki hjá SA eða ríkisstjórninni, vegna þess er deilan komin í þann hnút sem hún er í nú.


Þessi sameiginlega leið landsambanda innan ASÍ hefði skilað láglauna og millitekjufólki mestum ávinningi sem og tryggt þeim sem setið hafa eftir í launaþróun réttmæta leiðréttingu.


Á fundi viðræðunefndar SGS, sem haldin var í húsi ríkissáttasemjara í gær, var ákveðið að stíga fyrsta skrefið í átt til aðgerða með því að setja á fót aðgerðanefnd. Þessi ákvörðun var ekki tekin af neinni léttúð enda um grafalvarlegt mál að ræða þegar launþegar neyðast til að beyta því eina vopni sem þeir hafa til að knýja fram samninga. Það er þó von launþegahreyfingarinnar að SA sjái ljósið í myrkrinu og snúist á sveif með launþegum gagnvart ríkinu þannig að stöðugleiki og jafnvægi í efnahagsmálum verði það sem þessir kjarasamningar skili, okkur öllum til hagsbóta.

Deila