Translate to

Fréttir

Gamall baráttujaxl fallinn frá

Albert Kristjánsson 71 árs, eða fyrir nær 20 árum.  Myndin var tekin í gullbrúðkaupi hans og Guðlaugar. Albert Kristjánsson 71 árs, eða fyrir nær 20 árum. Myndin var tekin í gullbrúðkaupi hans og Guðlaugar.
Hinn 3. febrúar síðastliðinn lést í Hafnarfirði Albert Kristjánsson fyrrverandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga.

Albert var kosinn formaður félagsins árið 1947, en áður hafði hann verið ritari þess í tvö ár.  Hann var formaður félagsins 1947-1954, 1959-1960 og 1962-63, og ritari 1945-1947, 1954 og 1956. Auk þess gegndi Albert fleiri trúnaðarstörfum fyrir félagið og var kosinn fulltrúi þess á þing Alþýðusambands Vestfjarða og Alþýðusambands Íslands.

Hann var einnig um tíma oddviti Súðavíkurhrepps og og barðist m.a. fyrir því að vélbáturinn Trausti yrði byggður til að tryggja atvinnu á staðnum.

 

Albert Kristjánsson var fæddur á Ísafirði 3. október 1920, sonur Kristjáns Albertssonar vélstjóra sem fórst með mb Sólveigu í Halaveðrinu og Herdísar Samúelsdóttur. Hann ólst upp í Furufirði, hóf búskap með konu sinni Guðlaugu Guðlaugsdóttur að Búðum í Hlöðuvík árið 1941 og fluttist til Súðavíkur 1943. Árið 1966 fluttist hann til Hafnarfjarðar og lést þar eins og fyrr segir 3. febrúar 2011.

 

Langt er nú um liðið frá þátttöku Alberts í baráttu verkafólks á Vestfjörðum, en okkur er hollt að minnast þeirra sem börðust fyrir og komu á mörgum þeim réttindum sem öllum finnast svo sjálfsögð í dag.

Baráttan var hörð á þeim tíma sem Albert var í fylkingarbrjósti og iðulega áttu þeir sem fremstir fóru undir högg að sækja með vinnu - og þar með framfærslu fjölskyldunnar - vegna þátttöku sinnar, en létu þó ekki undan síga. Við stöndum öll í ómældri þakkarskuld við þetta kjarnafólk.
Verkalýðsfélag Vestfirðinga færir fjölskyldu Alberts Kristjánssonar samúðarkveðjur og þakkar fórnfúst starf hans í þágu vestfirskrar alþýðu.
 

Verkalýðsfélag Álftfirðinga, síðar Verkalýðs- og sjómannafélag Álftifirðinga var stofnað í Súðavík 6. apríl árið 1928. Fyrsti formaður var Halldór Guðmundsson verkamaður og ritari Helgi Jónsson, en þeir voru helstu hvatamenn að stofnun félagsins. Á stofnfundinn mætti Ingólfur Jónsson lögfræðingur, forseti Verklýðssambands Vesturlands. Félagið gekk þegar í sambandið og í Alþýðusamband Íslands árið 1931.  Meðal helstu afreka félagsins var bygging Samkomuhússins í Súðavík árið 1930, sem það átti í samlögum við fleiri félög í hreppnum. Árið 1931 átti Verkalýðsfélagið í harðvítugu verkfalli við Grím Jónsson, helsta atvinnurekanda í Súðavík. Hannibal Valdimarsson barnakennari í Súðavík var þá formaður félagsins. Voru þetta fyrstu afskipti hans af verkalýðsmálum.

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga 2002.

Deila