Translate to

Fréttir

Gjaldtaka af sjúklingum stórlega aukin - Miðstjórn ASÍ mótmælir

Hagdeild ASÍ hefur tekið saman upplýsingar um helstu breytingar á gjaldtöku hjá ríkinu nú um áramót. Umfangsmestar breytingar verða á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu þar sem miklar hækkanir urðu á allri greiðsluþátttöku sjúklinga í upphafi árs auk þess sem tekin var upp ný gjaldtaka af sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús.

Verðbólga í desember mældist 18,1% og hefur ekki verið hærri í tæpa tvo áratugi. Veikt gengi krónunnar er enn að skila sér út í verðlag og hafa mikil áhrif á verðbólguna, en þar að auki gætir nú einnig áhrifa af gjaldskrárhækkunum opinberra aðila. Gera má ráð fyrir að verðbólga fari enn vaxandi nú á fyrstu mánuðum nýs árs og munu þar m.a. hækkanir á gjaldskrám fyrir opinbera þjónustu hafa áhrif.


Miðstjórn ASÍ hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er hækkunum á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Þetta er gert á sama tíma og ekki hafa verið settar reglur um hámarks greiðsluþátttöku sjúklinga. Alþýðusambandið krefst þess að slíkar reglur verði settar nú þegar. Miðstjórn lýsir jafnframt áhyggjum af þeim áhrifum sem hækkanir á opinberum gjaldskrám hafa til hækkunar á verðbólgu og þar með verðtryggðum skuldum heimilanna.


Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna hækkana á gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni:

Miðstjórn ASÍ mótmælir þeim miklu hækkunum sem urðu á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni nú um áramót bæði í formi mikilla hækkana á gjaldskrám og með nýju gjaldi sem sjúklingum er nú gert að greiða við innlagnir á sjúkrahús. Þetta er gert án þess að settar séu reglur um hámarks greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbirgðiskerfinu. Aukin gjaldtaka í heilbrigðisþjónustunni er aðför að velferðarkerfinu. Hún leggst þungt á sjúklinga og tekjulægri hópa og er til þess fallin að hindra aðgengi að þjónustunni og auka misskiptingu. Miðstjórn krefst þess að nú þegar verði settar skýrar reglur um hámarks greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni.

Miðstjórnin lýsir jafnframt áhyggjum af þeim áhrifum sem hækkanir á opinberum gjaldskrám hafa á útgjöld heimilanna og til hækkunar á verðbólgu og þar með verðtryggðum skuldum. Þetta á bæði við um hækkanir á gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu sem og aðrar hækkanir á opinberri gjaldtöku auk hækkana á gjaldskrám sveitarfélaga sem boðaðar hafa verið.


Umfjöllun á vef ASÍ, þ.á.m. samantekt hagdeildar ASÍ um helstu breytingar á gjaldtöku hjá ríkinu um áramót.

Deila