Góður gangur í fiskvinnslu á Patreksfirði
Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga var í vinnustaðaheimsóknum á Patreksfirði í gær. Þrátt fyrir slæmt veður og blauta heiðarvegi tók ferðin ekki nema tvo og hálfan tíma, aðra leiðina. Þetta ferðalag færði enn og aftur heim sanninn um það slæma ástand sem við Vestfirðingar þurfum að búa við í samgöngumálum í fjórðungnum yfir vetrarmánuðina.
Fyrsta stopp var hjá Odda hf, sem er ein helsta lífæð í atvinnustarfsemi á Patreksfirði, en hjá fyritækinu starfa rúmlega 60 manns í vinnslu og útgerð. Félagið er í bolfiskvinnslu og gerir út beitningarvélarskipið Núp BA-69, þá leggur Vestri BA-63 einnig upp hjá fyrirtækinu.
Unnið er úr rúmlega 3000 tonnum á ári og er megináhersla á verkun í salt, ferskar og frosnar afurðir úr bolfiski. Nýleg vinnslulína er í húsinu og hefur hún aukið afköst sem hafa skilað sér til starfsfólks í hærri bónus ásamt því sem snyrtipremían er að gefa gott í aðra hönd.
Það kom fram í máli Sigurðar Viggóssonar framkvæmdastjóra Odda hf. líkt og hjá öðrum í útgerð og vinnslu, að það væri næsta fiskveiðiár og þá sérstaklega vormánuðir 2009 sem fyrirtækið hefði áhyggjur af varðandi hráefnisöflun.
Þá var einnig komið við hjá Perlufiski ehf sem er með einn línubát sem aflar fyrir vinnsluna ásamt því að kaupa afla á markaði. Fyrirtækið hefur verið í uppbyggingu á Patreksfirði frá 2005 og hjá Perlufiski starfa um 15 manns við vinnslu, útgerð og beitningu.
Í lok dags var svo komið við á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar sem er einn af stærri vinnustöðum í bænum. Þar var einnig farið yfir horfur í atvinnumálum og komandi kjarasamninga ásamt því að koma við á bitibúrinu áður en lagt var á heiðarnar.