Translate to

Fréttir

Gólflistasparnaður heilbrigðisstofnana

Starfsfólk í þvottahúsi hjá ríkisstofnun Starfsfólk í þvottahúsi hjá ríkisstofnun

Það er með hreinum ólíkindum að nánast án undantekninga skuli höggvið í skörð ófaglærðra þegar skera þarf niður hjá ríkinu til að ná fram hagræðingu í rekstri.  Viðkvæðið er jafnan „Rekum ræstingarfólkið það er með svo há laun, eða fólkið í ummönuninni, það er líka með svo svimandi há laun!"  Því fer víðs fjarri.  Niðurskurður vegna fjárlaga 2011 bitnar mjög hart á þessu mjög svo nauðsynlega starfsfólki stofnananna,  það sem verra er  hér er í flestum tilfellum verið að senda konur út á guð og gaddinn. 


Þessar konur eru í flestum tilfellum ófaglærðar og hafa að litlu að hverfa nema skammarlega lágum atvinnuleysisbótum. Þetta sést best á þeim störfum sem verið er að fórna á heilbrigðisstofnunum víða um land en 86% þeirra sem missa vinnuna hjá heilbrigðisstofnunum eru konur.  Á það hefur verið bent að hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða muni 11 manns missa vinnuna þar af 7 konur, mest munar um störfin sem tapast á Flateyri og var ekki á bætandi.
  

Verkalýðshreyfingin hefur löngum bent á að þessi sparnaður, sem sjaldnast nær upp fyrir gólflistana, er eingöngu tilflutningur á fjármunum hins opinbera úr einum vasanum í hinn. En í stað þess að ríkið greiði þessu fólki laun fyrir vinnu, þá greiðir ríkið laun til fólksins í formi atvinnuleysisbóta.  Lítill sparnaður þar. Það sem ofan á þett fólk leggst svo er óvissan um fjárhagslegt sjálfstæði og hvernig ná eigi endum saman. Ef það tekst ekki þá bitnar þetta á vanmáttugum sveitarfélögum sem hafa framfærsluskyldu gagnvart íbúum sínum.  Þessum gólflistasparnaði þarf að ljúka, stjórnendur stofnana verða finna önnur úrræði en nær undantekningarlaust ráðast að þeim sem minnst mega sín þegar hagræða á í rekstri. 


Verkalýðsfélag Vestfirðinga hvetur stjórnendur stofnana, sveitarfélaga og annarrar atvinnustarfsemi að líta sér nær þegar kemur að hagræðingu sem á að felast í fækkun starfa.  Skoðið líka það sem er fyrir ofan gólflistann, þar gætu leynst ýmsar matarholur þegar að sparnaði kemur.

Deila