Translate to

Fréttir

Gríðarleg fjölgun á atvinnuleysisskrá mikið áhyggjuefni

Frá áramótum hefur fjölgað gríðarlega á atvinnuleysisskrá hjá vinnumálastofnun á Vestfjörðum, eða úr 133 ainstaklinga í lok desember 2009 í 161 einstakling þann 9. febrúar 2010. Á sama tíma fyrir rúmu ári voru 83 einstaklingar á átvinnuleysisskrá hér á Vestfjörðum og þótti mönnum nóg um þá.  Nýjustu tölur segja okkur að atvinnuleysi í fjórðungnum hafi aukist um nærfellt 100% á þessu tímabili.  Þrátt fyrir það berja menn sér á brjóst og tala um að hlutfall atvinnulausra sé lang minnst á Vestfjörðum, við þurfum ekki að hafa svo mikla áhyggjur. 


Við meigum eiga von á að þessar tölur aukist enn ef forstöðumenn sveitarfélaga og ríkisstofnana ætla að beita niðurskurðarhnífnum í þeim tilgangi að fækka störfum ennfrekar í fjórðungnum.  Þessar ráðstanir eru mjög skammgóður vermir  og ekki til þess fallnar að uaka hagræðingu og sparnað þegar heildar myndin er skoðuð. 

Þetta eru mjög gjarnan störf ófaglærðs verkafólks sem ekki eru á neinum ofurlaunum og mun sparnaðurinn af hverju starfi sem er skorið af því verða óverulegur.  

Það hvílir mikil samfélagsleg ábyrgð í þeirri ákvörðun að skera niður störf hér í fjórðungnum, ekki eingöngu verður samsetning starfa fábreyttari heldur mun það einnig leiða til ennfrekari fólksfækkunar eins og dæmi undanfarinna ára sýndi okkur með mjög áþreifanlegum hætti.  Einnig mun það valda röskun í daglegum störfum í smærri byggðarkjörnum fjórðungsins, sem eiga þegar undir högg að sækja vegna samdráttar í aflaheimildum.


Erum við ekki búin að fá nóg af því að sjá fólkið okkar flýja fjórðunginn þegar þrengir að á vinnumarkaði?  


Hér þarf að koma til samhent átak til að verja öll þau störf sem við mögulega getum haldið í. Þar verðum við Vestfirðingar að standa saman ef árangur á að nást. Eiginhagsmunagæsla verður að víkja fyrir hag heildarinnar ef við ætlum áfram að sjá blómlega byggðakjarna á strandlengju Vestfjarða.  Það eitt að í Ísafjarðarbæ skulu 77 einstaklingar af þessum 161 einstaklingi vera atvinnulausir hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni.

Deila