Translate to

Fréttir

Gríðarleg vonbrigði

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að lækka stýrivexti um 1%. Þessi ákvörðun mælist illa fyrir hjá aðilum vinnumarkaðarins, sem undanfarið hafa rætt stöðugleikasáttmála með þátttöku ríkisvaldsins og sveitarfélaga, og  höfðu vænst þess að vextirnir færu nú loks niður fyrir 10%.
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segir á vef sambandsins í dag að þetta séu gríðarleg vonbrigði.
Eftirfarandi frétt er af vef ASÍ:

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir það gríðarleg vonbrigði að stýrivextir skyldu ekki hafa verið lækkaðir meira en um eitt prósentustig í morgun. „Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átta mig ekki alveg á því í hvað veruleika peningastefnunefndin og stjórnendur Seðlabankans búa. Það er alveg ljóst að með þetta hátt vaxtarstig er útilokað að það verði hér einhverjar fjárfestingar sem er forsenda þess að efnahagslífið fari að hjarna við. Ég óttast líka að SA segi sig frá umræðum um stöðugleikasáttmála í kjölfar þessara frétta. Það verður fundur með þeim í fyrramálið þar sem það mun skýrast," segir Gylfi Arnbjörnsson.

Deila