Translate to

Fréttir

Grunnnám byggingaliða að hefjast hjá Fræðslumiðstöðinni

Hluti nemenda og leiðbeinenda. Hluti nemenda og leiðbeinenda.

Í gær, 10. janúar, hófst hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða námskeiðið Grunnnám fyrir byggingaliða. Námskeiðið hófst með kynningu á skipulagi og námsgögnum í umsjá Smára Haraldssonar og voru þar mættir nemendur og leiðbeinendur. Hið eiginlega fagnámskeið hefst svo mánudaginn 17. jan. og er áætlað að því ljúki 9. febrúar.

Námið er 45 kennslustundir og undanfari framhaldsnáms fyrir byggingaliða. Það er ætlað þeim sem hafa stutta skólagöngu að baki, eru fullra 20 ára og hafa starfað í a.m.k. 6 mánuði hjá fyrirtækjum sem annast gatna- og jarðvinnu, hjá byggingarfyrirtækjum eða hjá fyrirtækjum sem framleiða og selja varning vegna gatnagerðar, húsbygginga- og mannvirkjagerðar.

Meðal þeirra þátta sem teknir eru fyrir eru teikningar og verklýsingar, mælitæki og mælingar, verkáætlanir og verkefnastjórnun, framleiðslukostnaður, gæðastjórnun, samskipti og samstarf á vinnustað, réttindi og skyldur á vinnumarkaði, þjónusta og forvarnir og öryggismál. Þarna er víða komið við og er ekki að efa að námið mun skila fyrirtækjum sem nýta sér það hæfari og öflugri starfsmönnum. Fyrir starfsmennina getur námið verið stökkpallur til frekari menntunar og einnig verður staða þeirra á vinnumarkaði að námi loknu mun sterkari en áður. Gleymum ekki að mennt er máttur.

Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta Grunnnám byggingarliða til styttingar á námi í framhaldsskóla allt að 3 einingum. Meta má námið á móti allt að 3 einingum í vali, 3 einingum á kjörsviði og/eða til almennra greina eftir styrkleika viðkomandi einstaklings.
Námskeiðið er styrkt af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, svo þátttökugjöld eru mjög lág.
Við minnum einnig á að þátttakendur geta fengið styrk hjá fræðslusjóði gegnum Verk-Vest.

Enn gæti verið mögulegt að bæta við nemendum. 
Nánari upplýsingar um það er að fá hjá fræðslumiðstöðinni í síma 456-5025.

Nánar um námsskrár Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
Heimasíða Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

Deila