Hátíðarræða Guðrúnar Önnu Finnbogadóttur 1. maí 2025
Fyrsti maí 2025
Þegar ég hugsa um 1. maí koma upp margar góðar minningar. Í æsku er besta minningin auðvitað að þetta var frídagur sem var alltaf vel þegið bæði í skóla og vinnu. Hin minningin er að fullorðnafólkinu var heitara í hamsi á þessum degi því verkalýðsmálin voru mikilvæg réttlætis og jafnréttismál fyrir alla.
Verkalýðsbaráttan er og hefur alltaf verið mikilvæg og var sagt frá því með miklu stolti á mínu heimili að Finnbogi Jón Guðmundsson langafi minn sem fæddist 1884 og bjó í Bolunarvík var einn af stofnendum Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur en það var stofnað 27. maí 1931 af verkafólki í Bolungavík.
Amma mín og dóttir hans Guðrún Finnbogadóttir fæddist árið 1915 og var send af sveitarfélaginu í ljósmæðranám og kom svo til baka til starfa sem ljósmóðir í Bolungarvíku aðeins 20. ára gömul. Hún var mikil baráttukona fyrir réttlæti og bættum kjörum fólks.og sumir kölluðu hana kommúnista. Til er sagan af dóttur hennar Siggu frænku sem kom hlaupandi lítil stelpa inn í Mjógötu 7 um miðja síðust öld með tárin í augun. Mamma, mamma ertu kommúnisti? Amma svarar þá: Hvað er þetta barn! Það gæti bara vel verið. Þá svaraði Sigga: Það getur ekki verið mamma, því þú hefur aldrei drepið neinn. Kommúnisti hefur oft verið sagt í sérstökum tón eins og það væri eitthvað slæmt að bera hag annara fyrir brjósti.
Ég fór sem skiptinemi til Tælands árið 1988 og áttaði mig fljótt á að mikill munur var á kjörum verkafólks þar miðað við Ísland. Sem dæmi fengu starfsmenn þar sem ég þekkti til þriggja daga frí á ári til að fara heim í sveitina og bjó á vinnustaðnum hina 362 dagana fyrir ofan búðina. Ég varð því heldur betur hissa þegar ég komst að því að jafnvel í Tælandi er 1. maí frídagur verkalýðsins opinber frídagur. Við þurfum að muna mikilvægi þessa dags sem er haldinn hátíðlegur í 160 löndum í heiminum.
Þá kemur spurningin af hverju ætti ég að halda ræðu á 1. maí þar sem ég telst líklegast ekki til stéttar verkafólks í þeim skilningi sem settur er í það orð? Ég hef sannarlega unnið allskonar verkamannavinnu á unglingsárunum en við skulum ekki gleyma uppruna okkar og framþróuninni sem orðið hefur í samfélaginu. Auk þess sem rétt er að hafa í huga að á mínum unglingsárum gengu ungir menn inn í hálaunastörf til dæmis á sjó með litla menntun en eina leiðin sem stelpurnar höfðu var að mennta sig til hærri launa.
Ég er stolt af því að forfeður mínir börðust fyrir jafnrétti og bættum kjörum allra í landinu, öll þau gildi eiga enn fyllilega rétt á sér. Ég er af fyrstu kynslóð ungs fólks á Íslandi sem verkafólk hafði efni á að senda í langskólanám, eins og það hét, og gat þannig látið sinn eigin langþráða draum um að mennta sig rætast í börnunum sínum. Ég hef með miklu stolti sagt frá því að öll mín menntun var greidd með afrakstri vestfirskrar harðfiskverkunar. Mín kynslóð hefur svo trúað því að þetta væri allt komið og við þyrftum ekki að berjast mikið fyrir kjörum okkar en þetta snýst ekki bara um okkur.
Verkalýðsbaráttan snýst um að tryggja að allir þeir sem vinna hafi mannsæmandi laun, að tryggja að þeir sem vinna geti keypt sér hús yfir höfuðið og að þeir sem vinna hafi efni á að styðja börnin sín til náms og að stoðir samfélagsins standi vörð um lífsgæði okkar allra.
Það eru blikur á lofti varðandi getu allra til að uppfylla þessa þætti, verandi í fullri vinnu. Við höfum líka fengið fólk erlendis frá í fjölda starfa og það hefur skapað ákveðna fjarlægð á verkalýðsbaráttuna þar sem við teljum okkur vera hólpin með okkar menntun og jafnvel með forskot vegna tungumálsins.
Við þurfum hinsvegar að hugsa myndina alla leið og til framtíðar. Verkalýðsbaráttan snýst um að allir hafi jöfn tækifæri í landinu, geti unnið sína heiðarlegu vinnu og fengið fyrir það mannsæmandi laun. Við meigum aldrei slaka á og þurfum að berjast fyrir að halda réttindum allra á vinnumarkaði og við eigum að geta litið til framtíðar í trausti þess að afkomendur okkar geti farið í hvaða störf sem er og fengið fyrir það mannsæmandi laun sem tryggja þeim afkomu og að þeir geti komið börnunum sínum til mennta.
Við eigum að vera stolt af því hvernig okkur hefur tekist að bæta aðbúnað vinnandi fólks á Íslandi. Við erum ekki lengur að róa á opnum bátum og stöndum ekki á reitunum í öllum veðrum og verkum saltfisk Við höfum tekið risaskref í rétta átt að bættum aðbúnaði og bættum kjörum við verðum samt að endurskoða myndina sem við höfum í huga þegar við ræðum um verkalýðsmál. Menntunarstigið á Íslandi hefur hækkað mikið og var talað um að ”berjast til mennta í gamla daga” og nú er fjöldi starfa sem krefjast góðrar menntunar en kjör fólks endurspegla ekki endilega þá menntun sem það hefur hlotið.
Ég er því stoltur afkomandi verkafólks og þakklát fyrir þá hvatningu og tækifæri sem ég fékk til að mennta mig sem er alls ekki sjálfgefið. Hinsvegar meigum við aldrei halla okkur aftur og halda að þetta sé
komið, verkalýðsmál eru mál sem eiga að brenna á okkur og þau staðna ekki heldur þróast með þeim breytingum og framþróun sem verður í samfélaginu. Við höfum náð langt á Íslandi en mig langar að setja hér fram eftirfarandi spurningar. Hvenær byrjar þú og hvernær hættir þú að vera verkalýður? Er nýja orðið yfir verkalýð kannski launþegi og ættum við mun fleiri að vera á fullu í launþegabaráttu?
Guðrún Anna Finnbogadóttir