Translate to

Fréttir

Hátt í 60 milljónir hafa náðst upp í launakröfur félagsmanna

Mikið álag hefur verið á starfsmenn skrifstofu Verk Vest undarna mánuði og misseri, en nánast má segja að samfelld gjaldþrotahrina fyrirtækja hafi dunið yfir félagsmenn á þessum tíma. Frá því í september 2010 og til janúar 2012 komu þrjú stór gjaldþrotamál inn á borð félagsins ásamt sex umfangsminni gjaldþrotamál. Stærstu og erfiðustu málin voru án efa gjaldþrot Eyrarodda á Flateyri og KNH á Ísafirði, var það vegna fjölda þeirra starfsmanna sem félagið aðstoðaði við að innheimta launakröfur á hin gjaldþrota fyrirtæki. Gjaldþrot TH á Ísafirði var einnig nokkuð stórt hvað launakröfur varðar en ekki hvað fjölda þeirra sem þurftu aðstoð við innheimtu launakrafna. Þá eru ótalin minni gjaldþrotamál sem félagið hefur gert kröfur í þrotabú fyrir hönd sinna félagsmanna.

Sá háttur hefur verið hafður á að félagið undirbýr og sér um alla útreikninga launakrafna sinna félagsmanna og hefur sú vinna lagst ofan á hin hefðbundnu störf hjá starfsfólki skrifstofunnar og erfiða kjarasamningsgerð árið 2011. Þetta er tímafrek rannsóknarvinna sem krefst mikils utanum halds og eftirfylgni við skiptastjóra og síðar ef þannig fer samskipti við Ábyrgðarsjóð launa. En sjóðurinn greiðir samkvæmt ákveðnum reglum upp í forgangskröfur, svo sem laun, orlof og lífeyrisiðgjöld ef ekki er til fyrir þeim í þrotabúi hins gjaldþrota fyrirtækis.

Alls hefur félagið innheimt hátt í 65 miljónir í launakröfur í umræddum gjaldþrotamálum fyrir félagsmenn á því tímabili sem um ræðir, hefur Ábyrðgarsjóður launa greitt hátt í 60 miljónir upp í þessar kröfur þar sem ekki voru til fjármunir í þrotabúum fyrirtækjanna. Ástæða þess að sjóðurinn greiðir ekki alla kröfuna er að sjóðurinn tryggir eingöngu kr. 374.000 sem hámarksábyrgð launa fyrir hvern mánuð og kr.599.000 sem hámarksábyrgð áunninna orlofslauna. Uppæðir hámarksábyrgðar hafa ekkert breyst frá janúar 2009, sem skýtur mjög skökku við þar sem laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað um 13,75% á umræddu tímabili. Mætti því leiða að því líkum ef hámarksábyrgðir hefðu hækkað í takt við launahækkanir á umræddu tímabili að hámarksábyrgð launa hvern mánuð í dag ætti að vera kr.425.500 og hámarksábyrgð orlofslauna ætti að vera kr.681.400.

Miðað við gefnar forsendur hefðu félagsmenn Verk Vest sem störfuðu hjá fyrirtækjum sem fóru í gjaldþrot á umræddu tímabili ekki tapað eins miklum hluta launakrafna sinna hefðu hámarksábyrgðir hækkað í takt við launaþróun á almennum vinnumarkaði.

Það er krafa félagsins að stjórnvöld vinni að því í samvinnu við verkalýðshreifinguna að hámarksábyrgðir Ábyrgðasjóðs verði hækkaðar í takt við launaþróun svo að launafólk verði ekki fyrir enn meira fjárhagstjóni þegar fyrirtæki fara í gjaldþrot nóg er nú samt.

Deila